Innlent

Slagsmál og læti á Sushi Social

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Allt var með kyrrum kjörum við Sushi Social um ellefuleytið í kvöld þegar þessi mynd var tekin.
Allt var með kyrrum kjörum við Sushi Social um ellefuleytið í kvöld þegar þessi mynd var tekin. Vísir

Upp úr sauð á veitingastaðnum Sushi Social við Þingholtsstræti í miðbæ Reykjavíkur um níuleytið í kvöld þegar slagsmál brutust út meðal gesta á staðnum. Þetta staðfestir Daníel Kavanagh veitingastjóri á Sushi Social í samtali við Vísi.

Þeir sem slógust voru saman úti að borða. Svo brutust út slagsmál en lauk svo til jafnfljótt og þau hófust að sögn Daníels. Mennirnir létu sig hverfa á staðnum áður en lögregla kom á vettvang.  

Lögreglubíll við Þingholtsstræti í kvöld.

Lögregla tók skýrslu af fólki á staðnum, öðrum gestum og starfsfólki. Veitingastjórinn segir fólk eðlilega hafa verið í nokkru uppnámi við að upplifa svona uppákomu. En slagsmálin hafi ekki staðið lengi yfir.

Hvorki náðist í lögreglu við vinnslu fréttarinnar né eiganda Sushi Social. Þá fengust þær upplýsingar frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu að engum sjúkraflutningum hefði verið sinnt á svæðinu um þetta leyti.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×