Enski boltinn

„Lét eins og að Mané stundaði dýfingar“

Sindri Sverrisson skrifar
Sadio Mané féll við þegar Lucas Vazquez fór af þunga utan í hann í aðdraganda annars marks Real Madrid í gærkvöld.
Sadio Mané féll við þegar Lucas Vazquez fór af þunga utan í hann í aðdraganda annars marks Real Madrid í gærkvöld. Getty/Oscar J. Barroso

Jürgen Klopp sagði Liverpool-menn ekki hafa átt meira skilið en 3-1 tap gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Hann furðaði sig þó á störfum dómarans Felix Brych og sagði hann hljóta að hafa eitthvað perónulegt á móti Sadio Mané.

Marco Asensio kom Real í 2-0 á 36. mínútu en í aðdraganda marksins virtist sem brotið hefði verið á Sadio Mané á hinum enda vallarins. Klopp vildi meina að dómarinn hefði verið ósanngjarn í garð Mané í öllum leiknum.

„Varðandi atvikið með Sadio – ég skil ekki það sem dómarinn gerði í kvöld. Fyrir mér var þetta eitthvað persónulegt því hann tók þannig á atvikinu með Sadio, sem var augljóst brot, að hann lét eins og að hann {Mané] stundaði dýfingar eða eitthvað. Frá því augnabliki var það þannig að í hvert skipti sem Sadio fór í jörðina þá fékk hann ekkert dæmt. Það er ekki réttlátt,“ sagði Klopp, sem vatt sér að Brych eftir leikinn.

„Þetta er það sem ég sagði við hann eftir leikinn, að mér hefði þótt hann ósanngjarn í garð Sadio. Það breytir samt engu. Hann tapaði ekki leiknum. Við vorum ekki nógu góðir til að ná betri úrslitum en á svona stundum þarftu að hafa „allt í lagi“ dómara. Það hefði verið nóg,“ sagði Klopp.

Seinni leikur Liverpool og Real Madrid verður á Anfield á miðvikudaginn eftir viku.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×