„Þegar ég kom út af flugstöðinni í gærkvöldi og opnaði símann tók ég eftir því að Kári Steffensen hafði farið mikinn í Kastljóssþætti, sem þá var nýlokið. Má segja að Kári sé sérfræðingur í öllu, öðrum fremri, og þar fékk ég og þjóðin öll ókeypis fræðslu um sóttvarnir og ekki síður lögfræði. Hann er sérfræðingur að sunnan og býr sennilega alveg syðst á landinu,“ segir Brynjar við upphaf síns pistils.
Brynjar, sem er nýkominn frá Spáni, leggur meðal annars út af viðtali við Kára sem var í Kastljósi í vikunni og vakti mikla athygli.
Hann segir að það hafi hingað til ekki þótt fréttnæmt þó hann brygði sér til útlanda. Og að þessu sinni hafi utanferð hans ekki komið til af góðu; elsti bróðir hans sem býr á Spáni ásamt konu sinni, fékk alvarlegt heilablóðfall fyrir tæpu ári síðan. „Hugsunin var sú að við bræður hans kæmum ásamt eiginkonum til að létta undir með honum í smá tíma. Einnig að gefa honum kost á að eiga stund með bróður okkar, sem glímir við Alzheimer, áður en hugurinn hverfur alveg.“
Brynjar furðar sig á þeirri heift og þeirri reiði sem skynja mátti hjá Kára í umræddum Kastljóssþætti en telur hana augljóslega til komna vegna gagnrýni minnar á aðgerðir yfirvalda í tengslum við frelsissviptingar á sóttvarnahóteli, sem voru alltof víðtækar og auk þess augljóslega ólögmætar.
„Geri mér grein fyrir því að sjónarmið Kára hafa víðtækan hljómgrunn í samfélaginu og ætla má að stjórnmálamenn sem tali gegn þeim séu annað hvort fullkomnir fávitar eða að kveðja stjórnmálin.“
Brynjar vekur athygli að því að Íslendingar megi ekki ganga lengra gegn réttindum fólks en nauðsynlegt er og lög heimila. „Það er hins vegar hætt við að það vefjist ekki fyrir fólki að samþykkja slíkt þegar óttinn og hræðslan er alls ráðandi. Með aðgerðum sem skerða réttindi fólks meira en góðu hófi gegnir getum við nefnilega skaðað samfélagið meira en veiran sjálf.“