Viðskipti innlent

Nær fjöru­tíu starfs­mönnum sagt upp á Hrafnistu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Á fjórða tug starfsmanna hjá hjúkrunarheimilinu Hrafnistu hefur verið sagt upp störfum. Bæði er um að ræða stjórnendur, hjúkrunarfræðinga, ræstitækna og aðra starfsmenn.
Á fjórða tug starfsmanna hjá hjúkrunarheimilinu Hrafnistu hefur verið sagt upp störfum. Bæði er um að ræða stjórnendur, hjúkrunarfræðinga, ræstitækna og aðra starfsmenn. Vísir/Vilhelm

Á fjórða tug starfsmanna hjá hjúkrunarheimilinu Hrafnistu hefur verið sagt upp störfum. Bæði er um að ræða stjórnendur, hjúkrunarfræðinga, ræstitækna og aðra starfsmenn. Tuttugu þessara starfsmanna störfuðu hjá Hrafnistu á Sléttuvegi en hinir hjá öðrum heimilum Hrafnistu. Mbl.is greinir frá.

Starfsmönnum var sagt upp í tvennu lagi, annars vegar um síðustu mánaðarmót og hins vegar um mánaðarmótin þar á undan. Ræsting verður nú aðkeypt en engir munu koma í stað hinna starfsmannanna sem sagt hefur verið upp.

Þetta staðfestir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, í samtali við mbl.is en fréttastofa náði ekki af henni tali fyrir vinnslu fréttarinnar. Hún segir uppsagnirnar endurspegla erfið rekstrarskilyrði hjúkrunarheimilanna sem rekin eru með þjónustusamningi við ríkið.

Hún segir einingarverð, sem fylgi hverjum íbúa, ekki duga til að standa undir launahækkunum starfsfólks sem bundnar eru í kjarasamningum og stytting vinnuvikunnar bæti ekki þar ofan á.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa reiknað svo að stytting vinnuviku starfsfólk, sem taka gildi þann 1. maí næstkomandi, muni fela í sér talsverða hækkun á launakostnaði. Þá segir María í samtali við mbl.is að uppsagnir séu ekki eitthvað sem heimilin þurfi á að halda núna.

„Okkur vantar meira fólk í þessi störf til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til okkar.“

Uppfært 12. apríl klukkan 08:48 

Að neðan er rætt við Maríu Fjólu í Bítinu á Bylgjunni um uppsagnirnar.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×