Enski boltinn

Mourinho aldrei tapað jafnmörgum leikjum á einu tímabili

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Krefjandi að stýra Tottenham.
Krefjandi að stýra Tottenham. Neil Hall/Getty

Tap Tottenham gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í gær var tíunda tap liðsins í deildinni á tímabilinu.

Tottenham hefur spilað 31 leik til þessa; unnið fjórtán, gert sjö jafntefli og tapað tíu leikjum. 

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, hefur aldrei upplifað það að tapa svo mörgum leikjum á einu tímabili en þessi 58 ára gamli Portúgali hefur verið afar sigursæll á sínum þjálfaraferli sem hófst með Benfica í heimalandinu árið 2000.

Mourinho kom sér á kortið í Evrópu með því að ná frábærum árangri með Porto á árunum 2002-2004 og hefur síðan þá stimplað sig inn sem einn farsælasti knattspyrnustjóri heims.

Hann stýrði Chelsea í þrígang til Englandsmeistaratitils, vann ítölsku deildina tvisvar með Inter Milan og varð Spánarmeistari með Real Madrid í eitt skipti.

Þó Mourinho hafi líklega ekki tekist ætlunarverk sitt þegar hann stýrði Man Utd frá 2016-2018 skilaði hann engu að síður þremur titlum í hús en í gegnum sinn þjálfaraferil sem spannar nú rúm 20 ár hefur Mourinho aldrei upplifað það að tapa tíu deildarleikjum á einu tímabili.

Tottenham er sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sex stigum frá fjórða sætinu sem gefur keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×