Pedersen og Strömsgodset tóku þá sameiginlegu ákvörðun að hann myndi hætta hjá félaginu eftir ásakanir um kynþáttaníð í garð leikmanna og starfsfólks hjá félaginu. Pedersen segir ásakanirnar algjörlega úr lausu lofti gripnar en að hann hafi kosið að stíga til hliðar til þess að lægja öldurnar.
Samvkæmt TV 2 sendu nokkrir leikmenn Strömsgodset bréf til stjórnar félagsins þar sem þeir óskuðu eftir því að Pedersen yrði látinn fara. Ari Leifsson og Valdimar Þór Ingimundarson eru í leikmannahópi Strömsgodset en ekki er ljóst hvaða leikmenn komu að því að senda bréfið.
Nýr þjálfari fundar með hverjum leikmanni
Björn Petter Ingebretsen og Håkon Wibe-Lund, sem var aðstoðarþjálfari Pedersens, mynda nýtt þjálfarateymi Strömsgodset. Ingebretsen er öllum hnútum kunnugur hjá Strömsgodset eftir að hafa áður þjálfað liðið 2018 en þá var hann einmitt með Wibe-Lund sér til aðstoðar. Ingebretsen harmar það hvernig félagið hefur litið út í fjölmiðlum síðustu daga.
„Fyrir mig, séð utan frá, þá er Strömsgodset núna „trúðafélag“. Við verðum að ná tökum á því. Safna öllum saman. Sameina leikmennina,“ sagði Ingebretsen á blaðamannafundi í dag.
„Ég mun funda með hverjum leikmanni fyrir sig í dag, fá þar fram það sem þeir vilja tjá sig um, hver afstaða þeirra er og hvað þeir hafa fram að færa. Núna þurfum við á hjálp frá öllum að halda. Þetta er erfið staða fyrir félagið,“ sagði Ingebretsen.