Innlent

Hræringarnar búnar að auka orku Svartsengis

Kristján Már Unnarsson skrifar
Jóhann Snorri Sigurbergsson er forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku.
Jóhann Snorri Sigurbergsson er forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku. Sigurjón Ólason

Umbrotahrinan á Reykjanesskaga hefur fært aukinn kraft í jarðhitakerfi Svartsengis, sem skilar núna meiri gufu til orkuframleiðslu hjá HS Orku.

Sprungur í malbiki og hrundar hraunhleðslur eru helstu ummerkin í Svartsengi eftir jarðskjálftahrinuna öflugu í aðdraganda eldgossins. Gosið sjálft ógnar hins vegar ekki orkuverinu.

„Þessi staðsetning á eldgosinu er mjög heppileg hvað þetta varðar. Þetta er þannig staðsett að það er ólíklegt að kvika renni hér yfir okkar innviði þannig að við erum mjög fegin,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku, í fréttum Stöðvar 2.

„Okkar jarðfræðingar hefðu líklega valið þennan stað ef þeir hefðu fengið að velja hvar eldgosið ætti að koma upp," bætir hann við.

Jarðgufuvirkjun HS Orku í Svartsengi. Þar eru einnig höfuðstöðvar fyrirtækisins. Fjallið Þorbjörn í baksýn.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Jarðskjálftahrinan hefur ekki bara opnað sprungur á yfirborði heldur einnig í jarðhitakerfum neðanjarðar, sem fæða orkuver eins og það í Svartsengi.

„Jarðskjálftar hafa yfirleitt alltaf einhver áhrif á okkar jarðhitakerfi, eða kerfið sem við vinnum upp úr. Og við sjáum það eftir þessa hrinu, sem var núna fyrr í ár, að áhrifin eru frekar jákvæð heldur en neikvæð. Þau eru jákvæð.

Það er aukinn kraftur í kerfinu. Við fáum í rauninni meira magn af gufu heldur en við fengum áður, svona lítillega, sem er eitthvað sem við bjuggumst við.“

-Og kannski jarðeldurinn kyndir ennþá betur undir?

„Ekki ennþá. Við sjáum enga tengingu við það sem er að gerast þarna við Fagradalsfjall í kerfinu okkar. Af því að þetta virðast vera ótengd kerfi.

En þetta kemur líklega bara úr sömu eldkúlunni og við erum að vinna úr hérna. Þannig að þetta er einhvern veginn tengt. Spurning hvað þú þarft að fara neðarlega,“ segir Jóhann Snorri.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×