„Þetta er mjög alvarleg staða og ég næ ekki utan um þetta. Ég er komin sjálf í rúmið,“ segir Bergljót Jóhannsdóttir leikskólastjóri. Leikskólanum hefur verið lokað vegna ástandsins út vikuna hið minnsta. Bergljót er meðal þeirra sem er með Covid-19.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá borginni, segist ekki hafa nýrri tölur en þær sem voru komnar í gærkvöldi. Þá voru fimm starfsmenn og sex börn smituð af Covid-19. Fleiri fóru í sýnatöku í gær og á Helgi eftir að fá tölur úr þeim sýnatökum.
Auk Jörfa greindist nemandi við Sæmundarskóla með Covid-19. Sá er barn starfsmanns í Jörfa.
Helgi segir nánari tölur á leiðinni og býst því miður við því að tölurnar fari hækkandi.
Runólfur Pálsson, yfirlæknir Covid-19 göngudeildar á Landspítalanum, sagði yfir tuttugu hafa greinst með Covid-19 í gær.
„Þetta er stór hópsýking og hún getur hæglega breiðst út og orðið miklu stærri,“ sagði Runólfur í Morgunútvarpinu.
Fram hefur komið að smitin á Jörfa megi rekja til brots á reglum um sóttkví.