Fótbolti

Swansea tryggði sér og tveimur öðrum umspilssæti

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mark André Ayew reyndist dýrmætt. Swansea mun ásamt Barnsley, Bournemouth og Brentford keppa um eitt laust sæti í ensku úrvalsdeildinni að ári.
Mark André Ayew reyndist dýrmætt. Swansea mun ásamt Barnsley, Bournemouth og Brentford keppa um eitt laust sæti í ensku úrvalsdeildinni að ári. Getty Images/Athena Pictures

Swansea og Reading gerðu 2-2 jafntefli í ensku Championship-deildinni í hádeginu. Úrslitin gera vonir Reading um umspilssæti að engu þar sem nú liggur fyrir hvaða fjögur lið munu keppa um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Með sigri sínun í gær tryggði Watford sér sæti í ensku úrvalsdeildinni að ári, ásamt Norwich sem er á toppi deildarinnar. Brentford var þá öruggt með umspilssæti en Reading hefði með sigri í dag getað haldið vonum sínum á lífi um að ná Swansea, Barnsley eða Bournemouth sem voru í 4.-6. sæti.

Það byrjaði vel fyrir Reading þegar skallamark Yakou Meite kom þeim í forystu eftir um hálftímaleik. 1-0 stóð í hléi en Jamal Lowe jafnaði fyrir Swansea á 67. mínútu. Ganamaðurinn André Ayew kom Swansea þá í forystu á 83. mínútu og gerði gott sem út um vonir Reading. Tomas Esteves tókst þó að jafna fyrir Reading í uppbótartíma en það dugði skammt.

2-2 jafntefli úrslit leiksins sem þýðir að Bournemouth, Swansea og Barnsley eru öll með 77 stig í 4.-6. sæti deildarinnar, sjö stigum á undan Reading þegar aðeins tveir leikir eru eftir.

Brentford er með 78 stig í 3. sætinu og munu næstu tvær umferðir því ráða því hvaða lið mætast í undanúrslitum umspilsins. Þriðja sæti mætir því sjötta en fjórða sætið því fimmta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×