Erlent

Meina bólu­settum kennurum að hitta nem­endur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
David og Leila Centner.
David og Leila Centner. Romain Maurice/Getty Images

Stjórn skóla nokkurs í Miami í Bandaríkjunum hefur hvatt starfsfólk sitt til að láta ekki bólusetja sig gegn Covid-19 og bannar bólusettum kennurum að vera í samskiptum við nemendur.

Í frétt breska ríkisútvarpsins af málinu segir að stjórn Centner Academy-skólans hafi vísað til stoðlausra staðhæfinga um að óbólusettir einstaklingar yrðu fyrir „neikvæðum áhrifum“ þegar þeir væru í samskiptum við bólusett fólk, án þess að færa fyrir því haldbærar sannanir.

Leila Centner, einn stofnenda skólans, tilkynnti foreldrum um þetta í gær og sagði einnig að það væri stefna skólans að reyna að komast hjá því að hafa fólk í vinnu sem þegið hefði bólusetningu. Í síðustu viku var sent bréf á starfsmenn skólans þar sem brýnt var fyrir þeim að tilkynna stjórn skólans ef þeir hefðu fengið bólusetningu.

„Við getum ekki leyft fólki sem nýlega hefur verið bólusett að vera nálægt nemendum okkar fyrr en frekari upplýsingar fást,“ sagði í bréfinu frá Centner til starfsmanna. Í bréfinu hélt hún því meðal annars fram að þrjár konur sem starfa við skólann hafi verið í samskiptum við bólusettan einstakling og það hafi haft áhrif á tíðahring þeirra.

Leila Centner og eiginmaður hennar, David Centner, eru sjálfskipaðir „talsmenn heilsufrelsis,“ og hafa veitt foreldrum barna við skólann ráðgjöf um hvernig sé best að sækja um undanþágu frá grímuskyldu.

Breska ríkisútvarpið hefur þá eftir fulltrúa Leilu Centner, sem svaraði fjölmiðlum vegna málsins, að skólinn teldi ekki að bóluefni væru algerlega örugg þar til annað kæmi í ljós.

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa ítrekað mælt með því að fólk láti bólusetja sig við kórónuveirunni. Það hafa samsvarandi stofnanir víða um heim einnig gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×