Menning

Frey­dís, Jón og Snæ­björn hlutu barna­bóka­verð­laun Reykja­víkur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Verðlaunahafar ásamt borgarstjóra fyrir utan Höfða í dag.
Verðlaunahafar ásamt borgarstjóra fyrir utan Höfða í dag. Reykjavíkurborg

Freydís Kristjánsdóttir, Jón St. Kristjánsson og Snæbjörn Arngrímsson hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2021 fyrir bækurnar Sundkýrin Sæunn, Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen 3 og Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti verðlaunin í Höfða nú síðdegis við fámenna athöfn sem var streymt á Facebook síðu Reykjavíkur.

Barnabókaverðlaunin eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni; flokki frumsaminna bóka, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Þetta eru elstu barnabókverðlaun á Íslandi en þau voru fyrst veitt árið 1973 á vegum fræðsluyfirvalda í Reykjavík. Árið 2016 voru Dimmalimm myndlýsingaverðlaunin felld undir Barnabókaverðlaunin og urðu flokkarnir þá þrír. Verðlaunafé er 350.000 kr. í hverjum flokki.

Í ár fékk dómnefnd 116 bækur, sem komu út á árinu 2020 til skoðunar, en nefndin er skipuð þeim Tinnu Ásgeirsdóttur, formanni, Ásmundi Kristberg Örnólfssyni, Guðrúnu Láru Pétursdóttur, Karli Jóhanni Jónssyni og Valgerði Sigurðardóttur. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki og hefur valnefnd nú skorið úr um hvaða höfundar og þýðandi hljóta verðlaunin.

Freydís Kristjánsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaunin fyrir myndlýsingar í bókinni Sundkýrin Sæunn. Sögur útgáfa gaf út. Í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars:

Myndir Freydísar eru listilega unnar, hrífandi og vinna vel með textanum og hvort tveggja vísar á skemmtilegan hátt í sígildar íslenskar barna- og þjóðsögur. Myndirnar eru í raunsæisstíl, unnar með vatns-/gvasslitum, og ber færni Freydísar vitni. Hún hefur frábært vald á þeim miðli sem hún hefur valið sér og um leið mikla næmni við að túlka dýr og menn.

Jón Stefán Kristjánsson hlýtur Barnabókaverðlaun fyrir þýðingu sína á bókinni Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen 3 eftir Finn-Ole Heinrich og Rán Flygenring. Angústúra gaf út. Í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars:

 Þýðandinn glímir við afar fjölbreytt verkefni í þessari sögu. Hann þarf ekki aðeins að búa til skapandi staðarheiti á borð við Brjálivíu og Plastgerði og nýyrði eins og Blappír og Brús-ís, hann þarf líka að þýða fjölda uppskrifta og myndasagna og halda takti í iðandi frásögn sem lýtur sínum eigin lögmálum. Allt ferst þetta honum afar vel úr hendi. Hann fangar einstök blæbrigði verksins og skilar bæði sorgum og sigrum Brjálínu til íslenskra lesenda á lipru og leikandi máli svo unun er að lesa.

Snæbjörn Arngrímsson hlýtur Barnabókaverðlaunin fyrir bestu frumsömdu bókina á liðnu ári, Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf. Vaka-Helgafell gaf út. Í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars:

Höfundur fer ákaflega létt með að véla lesandann inn í söguheiminn með lágstemmdum stíl og meitlaðri persónusköpun. Snæbjörn ber virðingu fyrir ungum lesendum og skilur margt eftir handa þeim til að ráða úr í textanum og lesa á milli línanna. En fyrir þá sem eru styttra á veg komnir standa fléttan og spennan fyllilega fyrir sínu og bókin á því erindi til margra. Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf er fágað verk sem skilur eftir löngun hjá lesanda að fylgja Millu og Guðjóni á vit nýrra ævintýra.

Tilnefndar bækur

Eftirtaldar bækur voru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2021 auk verðlaunabókanna:

Myndlýsingar í barnabók

Hestar eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring. Angústúra gaf út.

Hvíti björn og litli maur eftir José Federico Barcelona og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur. Salka gaf út

Nóra eftir Birtu Þrastardóttur. Angústúra gaf út. Sjáðueftir Áslaugu Jónsdóttur. Mál og menning gaf út.

Þýddar bækur

Danskvæði um söngfugla og slöngur eftir Suzanne Collins. Þýðandi Magnea J. Matthíasdóttir. JPV gaf út.

Múmínálfarnir - Seint í nóvember eftir Tove Jansson. Þýðandi Þórdís Gísladóttir. Mál og menning gaf út.

Ókindin og Bethany eftir Jack Meggitt-Phillips. Þýðandi Guðni Kolbeinsson. JPV gaf út.

Villinorn 4 og 5 - Blóðkindin og Fjandablóð eftir Lene Kaaberbøl. Þýðandi Jón St. Kristjánsson. Angústúra gaf út.

Bækur frumsamdar á íslensku

Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Mál og menning gaf út.

Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin eftir Yrsu Sigurðardóttur. Veröld gaf út.

Skógurinn eftir Hildi Knútsdóttur. JPV gaf út.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur. Vaka-Helgafell gaf út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.