Enski boltinn

Ekki að djóka með að kaupa Arsenal

Anton Ingi Leifsson skrifar
Daniel Ek, framkvæmdastjóri Spotify.
Daniel Ek, framkvæmdastjóri Spotify. Vísir/AFP

Daniel Ek, eigandi og framkvæmdastjóri Spotify, er ekkert að djóka með það að hann vilji kaupa Arsenal, félagið sem hann hefur stutt frá unga aldri.

Um helgina bárust fregnir af því að sá sænski væri tilbúinn að kaupa Arsenal ef Stan Kroenke, eigandi liðsins, væri tilbúinn að selja.

Daniel setti færslu á Twitter-síðu sína þar sem hann lýsti yfir áhuga sínum. Einhverjir héldu að hann væri að djóka en svo er ekki.

„Ég hef verið stuðningsmaður Arsenal síðan ég var átta ára. Arsenal er mitt félag. Ég elska söguna, leikmennina og auðvitað stuðningsmennina,“ sagði Daniel í samtali við CNBC samkvæmt Goal.com.

„Mér finnst þetta vera risa tækifæri til þess að setja stefnuna í rétta átt og koma félaginu til baka á meðal stórliðanna. Ég vil treysta stuðningsmönnunum og leyfa þeim að taka þátt á nýjan leik.“

„Mér er alvara. Ég hef tryggt nægt fjármagn og ég mun koma með tilboð, sem ég vil meina, að sé sannfærandi og svo vonast ég til þess að eigendurnir hlusti,“ sagði sá sænski.

Arsenal er í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðið tapaði síðast gegn Everton, 1-0, um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×