Enski boltinn

Búið að finna nýjan leik­dag: Nú þarf United að spila tvo leiki á þremur sólar­hringum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frá mótmælunum um helgina.
Frá mótmælunum um helgina. Danny Lawson/PA Images

Leikur Manchester United og Liverpool verður leikinn 13. maí en þetta var staðfest af ensku úrvalsdeildinni í gær.

Leiknum var frestað á sunnudaginn eftir að stuðningsmenn United brutust inn á völlinn til að mótmæla Glazer fjölskyldunni.

Mikil óánægja hefur verið með eignarhald Glazer fjölskyldunnar og eftir að ekki var hægt að koma liðunum út af hótelum sínum var ákveðið að fresta leiknum.

Nú verður leikurinn leikinn þann 13. maí, það er að segja næsta fimmtudag, en flautað verður til leiks klukkan 19.15, í beinni á Sky Sports.

United spilar við Leicester þriðjudagskvöldið 11. maí og því þurfa Ole Gunnar Solskjær og lærisveinar að leika tvo leiki á þremur sólarhringum.

Það verður því nóg að gera hjá þeim næstu sjö daga því í kvöld er leikur gegn Roma í Evrópudeildinni og á sunnudaginn mæta þeir Aston villa í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool mætir United þann 13. maí og leikur svo næst gegn WBA þann 16. maí en liðið er að berjast um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Þeir eru sem stendur í sjöunda sætinu á meðan United er í öðru sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×