Það er áætlað að 75 þúsund manns hafi heimsótt svæðið frá því eldgosið hófst fyrir nærri sjö vikum og það án teljandi slysa.
„Það teljum við bara mjög gott. Við erum náttúrlega með frábærar björgunarsveitir, fólk í kringum þær. Lögreglan hefur verið þarna. Fólk hefur farið að fyrirmælum og þetta er búið að ganga mjög vel,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri lögreglu, í fréttum Stöðvar 2.

En núna sjá menn fram á holskeflu útlendinga eftir því sem bólusetningar aukast og gera fleirum kleift að ferðast til Íslands.
„Okkur var hleypt inn í landið þar sem við erum bólusett,“ sagði Thomas Lovely, ferðamaður frá Bandaríkjunum, sem ásamt unnustu sinni, Miriam Pilarova frá Slóvakíu, ákvað sérstaklega að koma til Íslands til að sjá eldgosið.
„Þetta eru náttúrlega bara bráðaaðgerðir sem þarf að fara í. Bæði liggur landið okkar við skemmdum og svo erum við náttúrlega að horfa bara á öryggi ferðamanna. Þannig að ef einhvern tímann er nauðsyn að fara hratt í hlutina þá hlýtur það að vera núna,“ segir Sigurður Guðjón Gíslason, formaður Landeigendafélags Hrauns.

„Aðalhugmyndin er sú að gera þetta öruggt fyrir fólk, aðgengilegt, en þó þannig að landinu sé ekki misþyrmt,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Og vinnan er þegar hafin. Þannig er þessa dagana verið að leggja strengi inn á svæðið.
„Í þessa göngustíga verða lagðar raflagnir líka og strengir. Þannig að við getum komið upp þarna öryggismyndavélum eftir atvikum og gasmælum. Allt til þess að reyna að tryggja öryggi gangandi fólks þarna inn á svæðið og frá því,“ segir bæjarstjórinn.

Áform eru um að stytta aðalgönguleiðina með því að gera ný bílastæði.
„Færa til dæmis bara bílastæðin nær gosstöðvunum. Það náttúrlega auðveldar gang og tíma fólks á svæðinu,“ segir Sigurður Guðjón.
Í tillögum starfshóps stjórnvalda er lögð til gjaldtaka.
„Það kostar heilmikið að koma upp þessum bílastæðum, varanlegum bílastæðum. Þetta er núna til bráðabirgða inni á túnum, sem landeigendur lögðu til. Og það verði kannski rukkað hóflegt bílastæðagjald vegna reksturs á því.
Svo eru landeigendur með það í huga líka að koma upp þjónustuaðstöðu þarna, snyrtingum, upplýsingamiðstöð og aðstöðu fyrir þá sem eru að vinna á svæðinu. Þetta er eitt af því sem er í fullri vinnslu,“ segir Fannar bæjarstjóri.

Landeigendur vilja leggja vegslóða upp á Fagradalsfjall strax í sumar svo unnt verði að ferja fólk nær gosinu.
„Það er í raun og veru hægt að keyra yfir hraunið eins og það er núna eftir gömlum ýtuslóða. Og það er þá bara einhver tveggja þriggja vikna vinna kannski að gera þokkalega akfæran slóða þarna upp. Það er ekki meira,“ segir talsmaður landeigenda.
„Það á eftir reyndar að deiliskipuleggja svæðið. En það er verið á ýmsum vígstöðvum að vinna að því að reyna að flýta þessari framkvæmd eins og hægt er,“ segir bæjarstjórinn.
Bæjarráð Grindavíkur samþykkti nafnið Fagradalshraun í gær þótt sjálfur Fagridalur sé norðan fjallsins en eldgosið austanmegin. En hvað finnst talsmanni landeigenda um nafnið?
„Mér finnst Fagradalshraun vera virkilega fallegt nafn,“ svarar Sigurður Guðjón Gíslason.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: