Erlent

Fjöldi særður eftir átök við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem

Kjartan Kjartansson skrifar
Ísraelskir lögreglumenn handtaka palestínskan mótmælanda á Musterishæðinni í Jerúsalem í nótt. Mótmælin beindust að fyrirhugðum útburði á palestínskum fjölskyldum í hverfi sem ísraelskir landtökumenn hafa sölsað undir sig.
Ísraelskir lögreglumenn handtaka palestínskan mótmælanda á Musterishæðinni í Jerúsalem í nótt. Mótmælin beindust að fyrirhugðum útburði á palestínskum fjölskyldum í hverfi sem ísraelskir landtökumenn hafa sölsað undir sig. Vísir/EPA

Ísraelskir lögreglumenn skutu gúmmíkúlum og blossasprengjum að Palestínumönnum sem köstuðu steinum og flöskum í hörðum átökum við al-Aqsa-moskuna á Musterishæðinni í Jerúsalem í gærkvöldi. Að minnsta kosti 163 Palestínumenn eru sárir og sex ísraelskir lögreglumenn.

Rauði hálfmáninn opnaði bráðabirgðaspítala til að hlúa að þeim særðu í átökunum sem brutust út eftir að þúsundir manna söfnuðust saman við moskuna á síðasta föstudegi ramadan, föstumánaðar múslima. Ísraelska lögreglan segist hafa neyðst til þess að beita valdi til að koma á reglu vegna uppþota þúsunda manna eftir kvöldbænir, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Vaxandi spenna er vegna áforma um að reka Palestínumenn frá Shaikh Jarrah-hverfi Austur-Jerúsalem sem ísraelskir landtökumenn hafa sölsað undir sig. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt Ísraelsmenn til þess að láta það vera að reka Palestínumennina burt og að sýna „hámarkshófsemi“ í valdbeitingu gegn mótmælendum.

Hæstiréttur Ísraels tekur útburð palestínsku fjölskyldnanna fyrir á mánudaginn. Bæði Ísraelar og Palestínumenn gera tilkall til Austur-Jerúsalem. Palestínumenn vilja að borgarhlutinn verði höfuðborg sjálfstæðs ríkis þeirra í framtíðinni en Ísraelar hafa hersetið svæðið frá 1967.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×