Erlent

Mikil átök milli mótmælenda og lögreglu á Musterishæð

Samúel Karl Ólason skrifar
Tugir manna eru sagðir hafa verið fluttir á sjúkrahús vegna átakanna.
Tugir manna eru sagðir hafa verið fluttir á sjúkrahús vegna átakanna. AP/Mahmoud Illean

Palestínskir heilbrigðisstarfsmenn segja minnst 278 Palestínumenn hafa særst í átökum við ísraelska lögregluþjóna við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem í morgun. Þar af hafi minnst tugir þurft á sjúkrahús til aðhlynningar.

Lögreglan segir minnst tólf lögregluþjóna vera særða, auk almennra borgara. Í einu tilfelli hafi sjö mánaða barn slasast þegar grjóti var kastað í bíl sem barnið var í.

Rauði hálfmáninn í Palestínu segir einnig að lögregla hafi komið veg fyrir að læknateymi þeirra næðu á átakastaði í borginni, samkvæmt umfjöllun Times of Israel.

Í frétt Times of Israel er haft eftir lögreglunni að þúsundir Palestínumanna hafi komið sér fyrir við moskuna yfir nóttina og safnað saman grjóti, bensínsprengjum og öðrum munum sem hægt var að beita sem vopnum. Lögreglan segir mótmælendur hafa ætlað að beita sér gegn skrúðgöngu vegna svokallaðs Jerúsalemsdags, sem fara átti um svæðið í dag.

Því réðst lögreglan til atlögu, samkvæmt frétt BBC, og skutu þeir táragasi og hvellsprengjum að mótmælendum, sem voru á endanum reknir frá svæðinu.

Al-Aqsa moskan og svæðið sem hún er á, svokölluð Musterishæð, er heilagt fyrir bæði gyðinga og múslima. Áðurnefnd skrúðganga átti að fara um svæðið en hún hefur nú verið færð.

Mikil spenna hefur verið í Jerúsalem síðustu daga og hefur ítrekað komið til átaka milli lögreglu og mótmælenda. Lögreglan segir öfgamenn á bakvið ofbeldið og hefur gyðingum verið meinað að sækja moskuna.

Spennuna má rekja til þess að Ísraelar ætla sér að reka Palestínumenn frá hverfi í Austur-Jerúsalem, sem landtökumenn hafa sölsað undir sig. Palestínumenn vilja að borgarhlutinn verði höfuðborg sjálfstæðs ríkis þeirra í framtíðinni en Ísraelar hafa hersetið svæðið frá 1967.

Sjá einnig: Fjöldi særður eftir átök við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem

Hæstiréttur Ísraels átti að taka fyrir í dag mál nokkurra palestínskra fjölskylda sem hafa verið reknar frá heimilum sínum í hverfinu Sheikh Jarrah. Því var þó frestað vegna átaka og mótmæla og á málflutningurinn að fara fram innan mánaðar, samkvæmt frétt Reuters.

Hér má sjá tvö myndbönd AFP fréttaveitunnar sem tekin voru í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×