Innlent

Hérna vilja Almannavarnir ekki missa hraunið lengra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hraunkanturinn eins og hann hefur verið síðustu daga í nafnlausa dalnum. Almannavarnir eru viðbúnar því að ryðja upp varnargörðum þarna í von um að geta hindrað frekari framrás hraunsins í þessa átt.
Hraunkanturinn eins og hann hefur verið síðustu daga í nafnlausa dalnum. Almannavarnir eru viðbúnar því að ryðja upp varnargörðum þarna í von um að geta hindrað frekari framrás hraunsins í þessa átt. KMU

Eldgosið í Fagradalsfjalli er núna tvöfalt öflugra en það hefur lengst af verið, samkvæmt nýjum mælingum Jarðvísindastofnunar. Almannavarnir eru í viðbragðsstöðu með að láta ryðja upp varnargörðum til að hindra að hraunrennsli fari í Nátthaga og ógni þar með Suðurstrandarvegi.

Hinn breytti taktur eldgossins undanfarnar tvær vikur, með himinháum kvikustrókum en hléum þess á milli, hefur einnig skilað sér í auknu hraunrennsli. Þannig mælir Jarðvísindastofnun meðalrennslið núna þrettán rúmmetra á sekúndu, en var áður átta rúmmetrar á sekúndu, en fjallað var um þessa nýju stöðu í fréttum Stöðvar 2.

Jarðvísindastofnun segir gosið núna tvöfalt öflugra en það hafi lengst af verið.KMU

Nýtt þrívíddarlíkan Náttúrufræðistofnunar sýnir að hraunið er búið að fylla botn Geldingadala en það hefur einnig runnið í nafnlausan dal sem og Meradali. Meginhraunstraumurinn síðustu daga hefur verið til austurs í nafnlausa dalinn og þaðan niður í Meradali.

Hörður Sigurðsson, einn af eigendum jarðarinnar Hrauns og áður fjallkóngur svæðisins, segir dalinn reyndar ekki nafnlausan. Hann hafi vanist því að hann sé einn af Meradölum og sá syðsti þeirra.

Hér sést hve stutta leið hraunið á eftir til að komast í drög Nátthaga til hægri.KMU

Hrauntungan í dalnum hefur núna stöðvast skammt frá brekku niður í Nátthaga en þangað vilja Almannavarnir í lengstu lög reyna að hindra að hraunið komist.

„Ef þetta fer niður í Nátthaga þá er styttra niður á Suðurstrandarveg og þá fer þetta að hafa veruleg áhrif á innviði, sem sagt á veginn og samgöngur,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum.

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.Sigurjón Ólason

„En ef við náum að halda því frá því og þetta fari áfram í Meradalina þá getum við safnað þar upp alveg mjög drjúgt af efni. Og þó að það myndi fylla þar, svæðið þar austan við sem þá tæki næst við, það getur líka tekið drjúgt við. Þannig að það er til mikils að vinna fyrir innviðina.“

Ef hraunið kemst niður í Nátthaga er talið að erfitt verði að hindra það í að renna yfir Suðurstrandarveg.Grafík/Ragnar Visage

Eins og myndir í frétt Stöðvar 2 sýna vantar lítið upp á að hraunið komist fram úr nafnlausa dalnum og niður í Nátthaga en þegar er búið að forhanna varnargarð.

„Þetta yrði ekki stórt mannvirki. Það þyrfti að setja upp tvö lítil mannvirki sitthvoru megin við hæð, sem er þarna við endann á nafnlausa dalnum. Til að byrja með þá er reiknað með að þetta yrði svona fjórir metrar á hæð.“

Hér sést afstaða Nátthaga miðað við eldsprunguna sem jarðeldurinn kom upp úr.

Rögnvaldur segir að hægt væri með mjög litlum fyrirvara að koma vinnuvélum á svæðið til að ryðja upp varnargörðum.

„Það stefndi jafnvel í það á föstudaginn. Þá var aftur byrjað að streyma hraun inn í þennan nafnlausa dal. Við vorum komnir í startholurnar með að setja þetta af stað.

En síðan varð það ekki eins mikið og leit út fyrir í fyrstu og meginstraumurinn er ennþá niður í Meradali. Þannig að við höldum að okkur höndum aðeins lengur,“ segir Rögnvaldur.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Brennheitt gjallið kveikir gróðurelda fjarri gígnum

Glóandi gjall, sem þeytist hátt til himins úr eldgígnum á Fagradalsfjalli, hefur náð að kveikja gróðurelda í yfir eins kílómetra fjarlægð og var gossvæðið af þeim sökum lokað í dag. Kapp er nú lagt á bæta göngustíginn vegna tíðra slysa, með tveimur til þremur ökklabrotum á dag.

Gosið tvöfalt öflugra en hefur verið lengst af

Veruleg aukning hefur orðið í hraunrennsli í Fagradalsfjalli síðustu vikuna. Meðalrennslið yfir tímabilið mælist þrettán rúmmetrar á sekúndu sem er miklu meira en þeir tæplega átta rúmmetrar á sekúndu sem áður hafa mælst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×