Enski boltinn

Roy Kea­ne sá fjórði inn í Heiðurs­höll ensku úr­vals­deildarinnar: „Hinn full­komni miðju­maður“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Roy Keane við undirskriftina hjá Manchester United sumarið 1993.
Roy Keane við undirskriftina hjá Manchester United sumarið 1993. Malcolm Croft/Getty Images

Roy Keane hefur verið valinn inn í Heiðurshöll ensku úrvalsdeildarinnar. Bætist hann þar í hóp með þeim Thierry Henry, Alan Shearer og Eric Cantona.

Þeir Henry og Shearer voru fyrstu leikmennirnir til að fá inngöngu í höllina margrómuðu. Í gær var tilkynnt að Cantona og Keane væru einnig komnir inn. Þeir léku báðir með Manchester United á sínum tíma og voru samherjar frá 1993 til 1997. 

Fyrsta ár ensku úrvalsdeildarinnar lék Keane hins vegar með Nottingham Forest en eftir að liðið féll úr deildinni festi Manchester United kaup á honum fyrir 3.75 milljónir punda.

Alls lék Roy Keane 366 leiki í ensku úrvalsdeildinni, skoraði 39 mörk og lagði upp önnur 33 fyrir félagið. Það sem meira er þá varð hann sjö sinnum enskur meistari með félaginu.

„Hann var hinn fullkomni miðjumaður, það var ekkert sem hann var ekki góður í. Langar sendingar, stuttar sendingar, tæklingar, hlaupageta og þessir leiðtoga hæfileikar. Hann hafði allt sem þú vildir í miðjumanni,“ sagði Paul Ince, fyrrum miðjumaður Manchester United, Liverpool og enska landsliðsins.

„Ég er mjög heppinn að vera tekinn inn í Heiðurshöllina en ég hef aðeins verið valinn vegna þeirra leikmanna sem ég spilaði með,“ sagði hinn ávallt auðmjúki Keane í stuttu viðtali eftir að ljóst var að hann væri fjórði leikmaðurinn til að vera tekinn inn í Heiðurshöll ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×