Innlent

Í fangelsi í tvö og hálft ár fyrir nauðgun

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn í dag.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn í dag. visir/Vilhelm

Héraðs­dómur Reykja­víkur dæmdi í dag Augustin Du­fatanye í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa nauðgað konu. Hann verður þá að greiða út tæpa fimm og hálfa milljón vegna málsins, þar á meðal 1,8 milljón til konunnar í miska­bætur og tæpar fjórar milljónir fyrir allan sakar­kostnað.

Í dómnum kemur fram að Augustin hafi not­fært sér það að konan hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna ölvunar og svefn­drunga. Hún hafði verið á skemmtana­lífinu með vinnu­fé­lögum sínum en varð við­skila við þá.

Brotið átti sér stað að­fara­nótt 21. mars 2019 en í dómnum segir að konan hafi vaknað klukkan rúm­lega fimm um nóttina í ó­kunnri íbúð við það að ó­kunnugur maður væri að hafa við hana sam­farir.

Síðar sama dag fór hún á neyðar­mót­töku fyrir þol­endur kyn­ferðis­brota og gaf lög­reglu skýrslu um málið, sem tók þá til við að rann­saka það.

Við rann­sóknina var stuðst við upp­tökur úr öryggis­mynda­vélum skemmti­staða, síma­gögn og upp­lýsingar úr heilsu­for­riti í síma konunnar. Í kjöl­farið komst lög­regla að því hver maðurinn væri og hand­tók hann.

Breytti framburði sínum ítrekað

Í fyrstu neitaði Augustin að hafa átt í nokkrum sam­skiptum við konuna. Í annarri skýrslu­töku í málinu breytti hann þó fram­burði sínum og viður­kenndi að hann hefði verið í sam­skiptum við konuna en neitaði að nokkuð kyn­ferðis­legt hefði farið fram á milli þeirra. Í þriðju skýrslu­töku breytti hann svo aftur fram­burði sínum og sagðist þá að hafa stundað kyn­líf með konunni í stiga­ganginum að íbúð sinni.

Þessi fram­burður mannsins í skýrslu­tökum lög­reglunnar þótti eðli­lega ó­stöðugur og ó­sann­færandi. Á meðan þótti fram­burður konunnar stöðugur og skýr um þau at­vik sem hún mundi eftir um­rædda nótt.

Við rannsókn málsins nýttust þá gögn úr heilsu­for­riti í síma konunnar vel en þær sýndu til dæmis að margt í fram­burði Augustins stæðist ekki. Í síðustu skýrslu­töku yfir honum þegar hann hafði játað að hafa farið með henni heim til sín, lýsti hann leiðinni sem þau áttu að hafa gengið og kvað þau hafa verið 40 mínútur á leiðinni.

Gögn for­ritsins sýndu þó að konan hefði labbað mun styttri vega­lengd en hann lýsti og sýndu að ferðin hefði lík­lega verið farin í bíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×