Fangaverðirnir tveir Tova Noel og Michael Thomas, eru sakaðir um að hafa lagt sig og hangið á netinu í stað þess að fylgjast með Epstein nóttina sem hann fyrirfór sér í ágúst 2019.
Þeir hafa verið ákærðir fyrir að hafa logið til um staðreyndir málsins í fangelsisgögnum. Það hafi þeir gert í von um að svo myndi virðast að þeir hafi reglulega hugað að Epstein áður en hann fannst látinn í klefa sínum. Réttarmeinafræðingur í New York mat það svo að Epstein hafi tekið eigið líf.
Í samkomulagi við saksóknara, sem tilkynnt var um í gær, segir að mennirnir muni ekki afplána fangelsisvist. Þeir muni hins vegar vera skilorðsbundnir og haft verður eftirlit með þeim en þeir þurfa að klára minnst 100 klukkustundir í samfélagsþjónustu. Þá þurfa mennirnir að vera samvinnuþýðir við rannsakendur hjá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna við rannsókn þeirra á málinu.
Dómari á enn eftir að samþykkja samkomulagið og gæti það gerst í næstu viku.
Samkomulagið hefur verið harðlega gagnrýnt, meðal annars af öldungadeildarþingmanninum Ben Sasse, sem er nefndarmaður í dómsmálanefnd þingsins. Hann hefur verið mjög gagnrýninn á rannsókn dómsmálaráðuneytisins á dauða Epstei.
„Hundrað klukkustundir í samfélagsþjónustu er brandari – við erum ekki að tala um umferðalagabrot hérna,“ sagði Sasse í yfirlýsingu í gær. „Leiðtogi alþjóðlegs barnamansalshrings komst undan réttlætinu, samverkamenn hans sluppu fyrir horn því leyndarmál hans fylgdu honum í gröfina, og þessir fangaverðir munu gjalda með því að týna upp rusl í vegkanti.“
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.