Kjaramál hjá Play hafa verið í eldlínunni síðustu daga. Forsaga málsins er sú að Drífa Snædal forseti ASÍ hvatti landsmenn til að sniðganga flugfélagið þar sem félagið bjóði starfsmönnum hálfgerð þrælakjör. Vafi er uppi um þá fullyrðingu og hefur Birgir Jónsson forstjóri PLAY sagt framferði ASÍ óboðlegt. Það sé rangt að grunnlaun séu 260 þúsund krónur eins og ASÍ heldur fram, heldur séu þau 350 þúsund.
Nú síðast í gærkvöldi sagðist Drífa í samtali við Vísi standa við fullyrðingar sínar um grunnlaunin.
Einn mánuður upp á dag er nú í fyrsta flug Play. Á annað hundrað manns hafa verið ráðnir til starfa, þar af eru flestir flugfreyjur. Birgir Jónsson forstjóri Play segir að frá og með 3. ágúst, þegar þrjár flugvélar verða komnar í notkun, verði allir þessir starfsmenn byrjaðir að vinna. Sérstök námskeið eru hafin fyrir tiltekna starfsmannahópa en almenn flugliðanámskeið hefjast innan skamms.
„Við erum að kalla inn fólk á þjálfunarnámskeið sem er fólk sem mun síðan hefja störf í framhaldinu og þetta eru í þessum fasa rétt rúmlega hundrað manns. Það verða um tvö hundruð manns sem vinna hjá Play fyrir lok árs og þetta eru allt störf sem eru ný af nálinni, allt störf sem við erum að skapa,“ segir Birgir.
„Á næsta ári þegar við erum með sex til átta flugvélar þá verðum við komin með fjögur, fimmhundruð manns í vinnu.“
Birgir segir að engar athugasemdir hafi verið gerðar við kjarasamninginn af hálfu starfsmanna Play. Íslenska flugstéttafélagið semur fyrir hönd þeirra.
„Allir þeir ég held um fjögur hundruð manns sem tóku kynningar á sínum tíma þegar sótt var um störfin og valið úr ákveðinn hópur af fólki, þá var kjarasamningurinn kynntur fyrir þeim í smáatriðum og engar athugasemdir hafa borist. Enda hafa þær heldur ekki borist þegar það er búið að vera að hringja í þessa einstaklinga,“ segir Birgir, og vísar þá til þess þegar hringt er til að bjóða fólki ráðningu.