Skoðun

Sjúk­dóms­væðing fæðingar í fjöl­miðlum

Stefanía Ósk Margeirsdóttir skrifar

Það er áhugavert að velta fyrir sér fyrirsögnum blaðamanna í umfjöllun um fæðingar. Fjölmiðlar eiga til að mála upp ákveðna mynd af fæðingum sem einkennist af neikvæðri upplifun, áhættu, dramatík og óbærilegum sársauka. Líkleg skýring er sú að það sem er krassandi vill oft seljast betur. Umfjöllun um fæðingar getur þó haft bein áhrif á viðhorf til fæðingarinnar og því er ábyrgð fjölmiðla mikil þegar öll umfjöllun er sett í neikvætt eða áhættumiðað form.

En hverju skiptir þetta máli? Á einhverjum tímapunkti í lífi sínu eru flestir að íhuga barneignir. Þegar fæðingar eru sjúkdómsvæddar og fjölmiðlar draga upp neikvæða umfjöllun um fæðingar hefur það áhrif á ungt fólk og elur á hræðslu varðandi fæðingar og barneignarferlið allt (1). Rannsóknir hafa sýnt að umfjöllun fjölmiðla getur mótað viðhorf kvenna og alið á ótta og ranghugmyndum um fæðingar (2). Í 3. grein í siðareglum Blaðamannafélag Íslands stendur: ,,Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu”. Það má því spyrja sig hvort blaðamenn séu að fara gegn eigin siðareglum þegar þeir endurtekið fjalla um eins venjulegan atburð og fæðingu sem hádramtískan og hættulegan atburð í lífi kvenna. Þetta er ekki bara rangt, heldur getur þetta hreinlega valdið skaða.

Á Íslandi eru útkomur kvenna og nýbura góðar. Í samanburði við önnur lönd innan Evrópu er Ísland meðal þeirra landa sem hefur lægstu tíðni keisaraskurða, léttbura, andvana fæðingar og nýburadauða (3). Það sem skiptir máli í þessu samhengi er að mikill meirihluti kvenna sem verða barnshafandi eru hraustar konur í eðlilegri meðgöngu og því litlar líkur á að þörf sé fyrir bráðahjálp í fæðingu. Fjölmiðlar geta haft veigamikil áhrif á það hvort og hvar kona upplifir sig örugga og bera þar af leiðandi mikla ábyrgð. Mikilvægt er að minna líka á að flestar fæðingar ganga vel fyrir sig og þegar það þarf að grípa inn í er það gert af öryggi og þekkingu hér á landi. Þegar fjölmiðlar draga upp hádramatíska og neikvæða mynd af fæðingum getur það gefið verðandi foreldrum ranga hugmynd um áhættuna sem fylgir fæðingu og skapað óraunhæfan ótta hjá þeim. Þessi ótti getur orðið til þess að konur verði óþarflega hræddar á meðgöngu og í fæðingu sem síðan eykur líkur á fylgikvillum og inngripum. Í ljósi þess skora ég á fjölmiðla að láta af nokkrum flettingum á ári, vanda framsetningu og einbeita sér að ábyrgri umfjöllun þegar kemur að fæðingum.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir hjá Fæðingarheimili Reykjavíkur, Heilsugæslunni í Hamraborg og á Fæðingarvakt Landspítalans.





Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×