Innlent

Innlit inn í nýja sýnatökugáminn á Keflavíkurflugvelli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Starfsfólk í sýnatökugáminum býr sig undir komu flugvélar á Keflavíkurflugvelli.
Starfsfólk í sýnatökugáminum býr sig undir komu flugvélar á Keflavíkurflugvelli. Vísir/arnar

Nýr sýnatökugámur var tekinn í notkun á Keflavíkurflugvelli fyrir helgi. Aðstoðaryfirlögregluþjónn vonar að afkastageta aukist um helming en með auknum straumi ferðamanna sé þó spurning hvenær starfsemin sprengi utan af sér þessa nýju aðstöðu.

Sýnataka og móttaka vottorða fór áður fram á tveimur mismunandi stöðum inni í miðri flugstöðinni. Nú sýna farþegar hins vegar bólusetningar- og PCR-vottorð í komusal - og fara að því búnu í sýnatöku í sérútbúnum gámi fyrir utan flugstöðina. Arngrímur Guðmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli segir nýju aðstöðuna hafa gefist mjög vel.

„Málið var það að við vorum komin alveg að þanmörkum þar sem við vorum staðsett á öðrum stað í byggingunni, þar vorum við með einhverjar níu vinnustöðvar en hér er búið að opna átján vinnustöðvar þannig að þetta er búið að auka flæði gríðarlega.“

Arngrímur reiknar með breytingum á skimunarfyrirkomulaginu um miðjan júní.

„Við erum að vona að þetta sé að auka um helming hjá okkur, afkastagetan, en á sama tíma er farþegunum að fjölga alveg gríðarlega. Þannig að það er spurning hvenær þessi aðstaða hjá okkur springur líka.“

Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum.Vísir/Arnar

Almennt hafi gengið vel að taka á móti ferðamönnum á vellinum.

„Það er alltaf eitthvað um það að ferðamenn komi til landsins sem hafa ekki þessar heimildir sem ég hef nefnt áður og við höfum þurft að vísa aftur til síns heima. Þannig að nei, ekkert stórt en það er alltaf einn og einn sem er ekki alveg búinn að kynna sér hvernig á að ferðast til Íslands og hvaða gögn þarf að hafa með sér.“

Beðið eftir farþegum til að skima.Vísir/Arnar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×