Fótbolti

Real stað­festir komu Ancelotti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Carlo Ancelotti er tekinn við Real Madrid á nýjan leik. Hann leysir Zinedine Zidane af hólmi en hér eru þeir á árum áður er Ancelotti var aðalþjálfari liðsins en Zidane aðstoðarþjálfari.
Carlo Ancelotti er tekinn við Real Madrid á nýjan leik. Hann leysir Zinedine Zidane af hólmi en hér eru þeir á árum áður er Ancelotti var aðalþjálfari liðsins en Zidane aðstoðarþjálfari. EPA-EFE/JuanJo Martin

Real Madrid hefur staðfest að Carlo Ancelotti verði næsti þjálfari liðsins. Tekur hann við af Zinedine Zidane sem sagði starfi sínu lausu að lokinni nýafstaðinni leiktíð. 

Ítalinn Ancelotti er öllum hnútum kunnugur í Madríd en hann stýrði Real frá 2013 til 2015. Þar stýrði hann liðinu til sigurs í Meistaradeild Evrópu ásamt því að vinna spænska Konungsbikarinn, Ofurbikar Evrópu og HM félagsliða. 

Hann hefur nú samið við félagið að nýju og skrifaði undir þriggja ára samning.

Í desember 2019 tók hann við enska úrvalsdeildarfélaginu Everton og skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning. 

Liðið endaði í 13. sæti þá leiktíð en á nýafstaðinni leiktíð var Everton lengi vel í baráttunni um Evrópusæti en fataðist flugið fyrir rest og lauk leik í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. 

Nú er ljóst að Ancelotti mun ekki gera aðra atlögu að Evrópusæti með Everton þar sem hann er farinn til höfuðborgar Spánar á nýjan leik.

Hinn 61 árs gamli Ancelotti tjáði sig á Twitter-síðu sinni nú fyrir skömmu. Þar þakkar hann Everton, leikmönnum og stuðningsfólki fyrir frábæra tíma en hann leiti nú að nýjum áskorunum hjá félagi sem hefur alltaf staðið honum nærri, Real Madrid.

Ancelotti hefur á ferli sínum sem þjálfari unnið alls 15 titla. Hann hefur stýrt liðum á borð við Juventus, AC Milan, Chelsea, París Saint-Germain, Bayern München og Napoli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×