Enski boltinn

Varð fyrir netníði eftir að hafa verið orðuð við karlalið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Casey Stoney gerði góða hluti með kvennalið Manchester United.
Casey Stoney gerði góða hluti með kvennalið Manchester United. getty/Charlotte Tattersall

Casey Stoney, fyrrverandi knattspyrnustjóri kvennaliðs Manchester United, varð fyrir netníði eftir að hún var orðuð við karlalið Wrexham.

Stoney greindi frá þessu á Twitter í gær. Þar sagði hún að netníðingarnir ættu að skammast sín.

Hún hætti hjá United í vor eftir þriggja ára starf. Undir hennar stjórn komst United upp í efstu deild og stimplaði sig inn sem eitt af bestu liðum Englands.

Stoney var á dögunum orðuð við utandeildarlið Wrexham sem er í stjóraleit. Félagið er í eigu leikaranna Ryans Reynolds og Robs McElhenney.

„Fyrir allt yndislega fólkið sem er að hrakyrða mig fyrir að vera orðuð við starf í karlaboltanum í guðanna bænum gerið ykkur greiða og lækkiði blóðþrýstinginn,“ skrifaði Stoney á Twitter.

„Ég nýt þess að verja tíma með fjölskyldu minni, takk fyrir. Ef þú átt dóttur, systur, konu eða móður ættirðu að skammast þín.“

Á nýafstöðnu tímabili lenti United í 4. sæti ensku ofurdeildarinnar og missti naumlega af sæti í Meistaradeild Evrópu.

Stoney, sem er 39 ára, lék 130 leiki fyrir enska landsliðið og var um tíma fyrirliði þes. Hún varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með Arsenal og lék einnig með Charlton Athletic, Chelsea, Lincoln og Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×