Enski boltinn

Faðir Aguero segir að Guardiola hafi grátið krókódílstárum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola gat ekki haldið aftur af tárunum þegar hann talað um Sergio Aguero eftir síðasta deildarleik Argentínumannsins fyrir Manchester City.
Pep Guardiola gat ekki haldið aftur af tárunum þegar hann talað um Sergio Aguero eftir síðasta deildarleik Argentínumannsins fyrir Manchester City. EPA-EFE/Dave Thompson

Pep Guardiola talaði vel um Sergio Aguero þegar markahæsti og sigursælasti leikmaður Manchester City kvaddi en það er að minnsta kosti einn úr fjölskyldu Aguero sem telur að Guardiola hafa bara verið að setja upp leiksýningu fyrir myndavélarnar.

Sergio Aguero hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester City og mun spila fyrir Barcelona á næstu leiktíð.

Síðustu mánuðir voru erfiðir fyrir Aguero sem var að glíma við meiðsli og svo við það að hann fékk ekki mikinn spilatíma hjá knattspyrnustjóranum Pep Guardiola.

Hinn 33 ára gamli Argentínumaður rann út á samning í sumar og hefur nú samið við Barcelona á Spáni.

Pep Guardiola grét þegar hann var að tala um Sergio Aguero eftir síðasta deildarleik framherjans. City hafði þá unnið 5-0 sigur á Everton og Aguero skoraði tvö mörk þrátt fyrir að hafa ekki komið inn á völlinn fyrr en á 65. mínútu.

Leonel del Castillo sá hins vegar ekki sönn tár renna hjá knattspyrnustjóranum og heldur því fram að að þetta hafi verið uppgerð hjá Pep og fölsk tár. Spænski stjórinn hafi aðeins verið að setja upp leiksýningu fyrir myndavélarnar.

Leonel var spurður út í blaðamannafund Pep.

„Ég trúi honum ekki. Nei, það geri ég ekki. Ég held að hann hafi aldrei vilja hann [Aguero],“ sagði Leonel del Castillo.

Og voru þá tárin fyrir myndavélarnar? „Auðvitað. Hann vill vera stjarnan í öllum liðum sínum í stað leikmannanna,“ sagði Leonel

„Þetta er ótrúlegt. Hann [Guardiola] segir að enginn geti komið í staðinn fyrir hann en hann er samt ekki með hann í liðinu. Svona er bara Guardiola sem er frábær þjálfari. Hann er alltaf að breyta um leikmenn og þú veist aldrei hvort þú ert að fara að byrja eða ekki,“ sagði Leonel.

Það kom líka fram í spjallinu að Sergio Aguero vildi framlengja við Manchester City en að samningstilboðið hefði aldrei komið.

Sergio Aguero skoraði 260 mörk í 390 leikjum með Manchester City þar af 184 mörk í 275 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×