„Nei, ég mæli alls ekki með því og það er í raun og veru enginn sem gerir það vegna þess að þó að sterk fylgni sé á milli mótefnasvars og verndarinnar þá er verndin háð öðrum þáttum sem er ekki verið að mæla,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í samtali við fréttastofu.
„Það að fá bara mótefnamælingu það getur skapað mikinn óróleika og ugg hjá fólki sem er ekki með mjög há mótefni. Það þarf að túlka þessa niðurstöðu fyrir fólki þannig að ég mæli alls ekki með því að fara í mótefnamælingu nema að höfðu samráði við lækni.“
Hann segir þurfa að taka tillit til ýmissa annarra þátta í ónæmiskerfinu.
„Það er bara ónæmiskerfið, sem er mjög flókið, það er svokallað frumubundið ónæmi svo er annars konar ónæmi sem spilar líka stórt hlutverk í vernd gegn sýkingum, sem er ekki verið að mæla með þessum mótefnum, þannig að þetta er svolítið yfirdrifið finnst mér,“ segir Þórólfur.