Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, mætast og ræða nýja könnun á vegum BSRB um afstöðu almennings til heilbrigðiskerfisins. Könnun sem sögð var sýna andstöðu við einkarekstur en Þórarinn og hans kollegar segja markleysu og að niðurstöðurnar skipti engu.
Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur kemur og ræðir nýja grein sína í Tímariti lögfræðinga þar sem hún færir sterk rök fyrir því að allt ferlið í kringum samþykkt nýrrar stjórnarskrár eftir hrun hafi verið meingallað og hafi aldrei getað skilað því sem til stóð.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Logi Einarsson mætast og rökræða hugmyndir Mette Fredrikssen, jafnaðarforingja í Danmörku, sem nú hefur komið því í kring að hælisleitendur bíði svara við umsóknum sínum í búðum fjarri Danmörku. Gróf stefnubreyting af hálfu jafnaðarmanna vilja margir meina.
Halldóra Mogensen, upphafskona að frumvarpi um afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna, rökræðir þá hugmynd við Rafn Jónsson, verkefnisstjóra áfengis- og vímuvarna hjá landlækni.
Sprengisandur hefst beint á eftir fréttum Bylgjunnar klukkan 10:00.