„Uppáhaldstölvupósturinn til mín í dag kom frá Disney+ sem boðar tímamót í talsetningu og textun! Viðbrögðin við óskum Íslendinga eru til sóma og það er ljóst að á okkur er hlustað,“ skrifar Lilja Alfreðsdóttir á Facebook.
Lilja sendi forstjóra Disney, Bob Chapek, bréf í byrjun árs þar sem hún hvatti fyrirtækið til þess að bjóða í meira mæli upp á íslenska talsetningu og texta. Kvaðst hún þá hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar hún komst að því hve lítið af slíku efni var í boði hjá fyrirtækinu.
Viku síðar fékk hún svar frá Hans van Rijn, yfirmanni Disney á Norðurlöndunum. Sagði í svari hans, sem hann sendi Lilju þann 8. febrúar síðastliðinn, að tæknileg vinna við að bjóða upp á íslenskt tal og texta taka nokkra mánuði.
Nú hefur fyrirtækið orðið við beiðni Lilju og eru meira en 100 myndir aðgengilegar með íslensku tali. Þar á meðal eru klassískar myndir eins og Fantasía, Gosi, Pétur Pan, Ísöld og Leikfangasaga.