Fjármálaráðherra tilkynnti í lok janúar ákvörðun sína að selja allt að 35% í Íslandsbanka af 100% hlut ríkisins í bankanum. Salan hófst í dag og lýkur 15. júní.
Salan fer fram hér á landi og er það í fyrsta skipti sem það gerist hjá íslensku félagi í alþjóðlegu útboði.
Aðeins Íslendingar og innlendir og erlendir fagfjárfestar geta keypt hlutafé í bankanum. Þetta þýðir að almenningur í öðrum löndum getur ekki fjárfest í bankanum í útboðinu nema að hafa íslenska kennitölu.
Erlendir og innlendir ráðgjafar og bankar aðstoðuðu Bankasýslu ríkisins og Íslandsbanka við útboðið en stofnunin heldur á hlut ríkisins.
Útboðsgengi er áætlað a á bilinu 71 kr. á hlut og 79 kr. á hlut en endanlegt útboðsgengi verður ákveðið í tilboðsferli. Lágmarksupphæð á kaupum í bankanum hefur verið ákveðin.
„Lágmarkið er 50 þúsund krónur og það er stefnt að því að skerða ekki kaup undir milljón. Það fer svo eftir eftirspurninni hvort það tekst,“ segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka.
Heildareignir 1,4 billjón krónur, markaðsvirði 150 milljarðar
Heildareignir bankans eru um 1,4 billjón krónur. Áætlað er að ríkið fái 41 milljarð króna fyrir sinn hlut í bankanum en áætlað markaðsvirði hans er 150 milljarðar króna.
„Verðmæti bankans er metið út frá eigin fé hans þannig að það er verið að selja eigin fé,“ segir Birna.
Þegar eru komnir fjórir kjölfestufjárfesta sem fara samanlagt með 10% í bankanum eða Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna sem fara hvor um sig með 2,31% hlut. Bandaríska sjóðstýringarfyrirtækið Capital World Investment hefur skuldbundið sig til að kaupa 3,85% hlut í og RWC breskt eignastýringarfyrirtæki áætlar að fara með 1,54% hlut í bankanum.
Býst við að farið verði að tillögum þingnefnda um hámarkshluti fjárfesta
Efnahags-og viðskiptanefnd Alþingis lagði til í janúar að sett verði hámark á hlut hvers tilboðsgjafa, t.d. 2,5–3,0% af heildarhlutafé bankans.
Birna býst við að miðað verði við það í söluferlinu þó undantekning hafi verið gerð með Capital World Investment sem fer með 3,85% hlut.
„Það er algjörlega seljandans eða ríkisins að ákveða hvernig fyrirkomulagið á því verður. Það komu leiðbeiningar frá þingnefndum sem verður örugglega stuðst við að einhverju leyti,“ segir Birna.