Fjöldi farþega í millilandaflugi var um 21.900 í liðnum mánuði, samanborið við um 3.200 í fyrra. Fjöldi farþega hingað til lands var um 14.400 í maí, sem er nær þrefalt meira en í apríl. Í maí á síðasta ári voru farþegar hingað til lands aðeins 1.500.
Fjöldi farþega frá Íslandi var þá um 5.700, um tvöfalt fleiri en í síðasta mánuði. Farþegar sem flugu héðan í maí á síðasta ári voru 1.600.
Í tilkynningunni kemur fram að sætaframboð í millilandaflugi hefði aukist umtalsvert á síðustu tveimur mánuðum og væri orðið tæplega áttfalt meira en á sama tíma á síðasta ári. Í síðasta mánuði hóf Icelandair að fljúga til Tenerife, Berlínar og München í Evrópu. Þá bættust Seattle, Chicago, Denver og Washington við áfangastaði í Norður-Ameríku.
Aukinn ferðavilji samhliða bólusetningum
Fjöldi farþega í innanlandsflugi í maí var um 18.000, um það bil tvöfalt fleiri en í apríl og þrefalt fleiri en í maí 2020. Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust þá saman um 39 prósent. Fraktflutningar jukust um 24 prósent, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að ánægjulegt sé að sjá þá aukningu sem hefur orðið í millilandaflugi og innanlandsflugi á undanförnum vikum.
„Samhliða bólusetningum og auknu svigrúmi til ferðalaga hefur ferðavilji í heiminum aukist. Við finnum fyrir miklum áhuga á Íslandi sem áfangastað og öflugt markaðsstarf okkar erlendis hefur verið að skila sér. Við búumst við að yfir 30 þúsund ferðamenn komi til Íslands með Icelandair í júní. Þá er ánægjulegt hvað innanlandsflugið hefur gengið vel og er framboð okkar í júní svipað og á sama tíma á árinu 2019,“ er haft eftir Boga Nils.