Fótbolti

Byrjunarliðið gegn Póllandi: Markaskorarinn kemur inn og Aron Einar og Birkir færast nær hundrað leikjunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikael Neville Anderson skoraði mark Íslands gegn Færeyjum á föstudaginn og er í byrjunarliðinu gegn Póllandi.
Mikael Neville Anderson skoraði mark Íslands gegn Færeyjum á föstudaginn og er í byrjunarliðinu gegn Póllandi. vísir/vilhelm

Arnar Þór Viðarsson gerir fimm breytingar á byrjunarliði íslenska karlalandsliðsins fyrir leikinn gegn Póllandi í Poznan í dag.

Rúnar Alex Rúnarsson, Guðmundur Þórarinsson, Mikael Neville Anderson, Andri Fannar Baldursson og Albert Guðmundsson koma inn í byrjunarliðið frá 0-1 sigrinum á Færeyjum á föstudaginn. Mikael skoraði eina mark leiksins.

Ögmundur Kristinsson, Valgeir Lunddal Friðriksson, Jón Dagur Þorsteinsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Kolbeinn Sigþórsson detta út úr byrjunarliðinu.

Reynsluboltarnir Birkir Bjarnason og Aron Einar Gunnarsson eru í byrjunarliðinu þriðja leikinn í röð. Birkir leikur sinn 98. landsleik í dag og Aron Einar sinn 97.

Guðmundur Þórarinsson er í byrjunarliði íslenska landsliðsins í fyrsta sinn síðan í markalausu jafntefli gegn Eistlandi 15. janúar 2019. Selfyssingurinn leikur sinn sjöunda landsleik í dag.

Þriðja leikinn í röð byrja þeir Hjörtur Hermannsson og Brynjar Ingi Bjarnason í miðri vörn Íslands.

Íslenska liðið tapaði fyrir Mexíkó um þarsíðustu helgi, 2-1, og vann svo Færeyjar á föstudaginn, 1-0, eins og áður sagði.

Leikur Póllands og Íslands hefst klukkan 16:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×