Brotin felast að mati ÁTVR í áfengissölu í vefverslunum, sem Vínbúðin segir í trássi við lög.
Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, hefur ratað í fjölmiðla undanfarið vegna vefverslunar með áfengi, sem hann rekur í gegnum franska vefsíðu. Áfengið er þó geymt og afgreitt hér á landi.
ÁTVR segir að þetta sé bannað.
„ÁTVR telur mikilvægt að leiðrétta þann misskilning að mismunandi reglur gildi um innlenda aðila og erlenda þegar kemur að heimild til þess að reka vefverslun með áfengi til einstaklinga hér á landi. Öll vefverslun með áfengi beint af innlendum lager samsvarar smásölu og brýtur í bága við einkarétt ÁTVR, óháð þjóðerni þess sem stendur fyrir vefversluninni.“
ÁTVR telur að fyrir liggi óyggjandi sönnun fyrir brotum umræddra brugghúsa.
Með tilkynningunum vilja ÁTVR koma því til leiðar að sýslumennirnir hefji þegar í stað áminningarferli gagnvart þessum aðilum eins og leyfisveitanda er skylt að gera.
Lög kveði á um að leyfishafi sem verður uppvís að frekari brotum á meðan áminning er í gildi skuli sviptur leyfinu um stundarsakir eða fyrir fullt og allt.