Skoðun

Fals­frelsi ríkis­stjórnarinnar

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Það segir sitt um arfleið ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að það eru ekki verk hennar sem eru minnistæðust heldur brostin fyrirheit. Það sem ekki varð. Þessi grein er um slík fyrirheit. Ekki þó um hálendisþjóðgarð eða áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem eru á leið í skrúfuna á höktandi siglingu stjórnarflokkanna. Ekki heldur um margyfirlýsta „björgun“ heilbrigðiskerfisins sem endaði sem örgustu öfugmæli eða öll hin fögru fyrirheit menntamálaráðherra sem voru lítið annað en loftið eitt. En vissulega nóg af lofti.

Nei, ég er tala um frelsismálin sem ríkisstjórnin skreytti sig með. Málin sem þau skutu inn hér og þar eins og til að segja: „Sko, víst er okkur annt um frelsi fólks til athafna.“

Til að gæta sanngirni snerist þetta frekar um að einstaka ráðherrar og þingmenn gætu skreytt sig frelsisfjöðrum, flestum þeirra var nokk sama, margir jafnvel með ofnæmi fyrir svona fjöðrum.

Instagramfrelsið

Frelsisfjaðrirnar voru helst viðraðar á samfélagsmiðlunum. Kannski var ætlunin að ná athygli unga fólksins þar en krossa svo fingur og vona að athyglin næði ekki alla leið inn í þingsal þar sem nú hefur endanlega komið í ljós að þetta voru bara orðin tóm. Þessi ríkisstjórn var aldrei að fara að auka frjálsræði á leigubílamarkaði með því að leyfa starfsemi farveitna eða opna á frelsi fólks til að velja sér eigin nöfn óháð afskiptum ríkisins. Og stóra vínfrelsismálið varð að engu. Frá víni í verslanir, yfir í netsölu á áfengi, yfir í bjórkippu yfir borðið á framleiðslustað, sem enn á eftir að komist í gegnum nálaraugað. Fyrirheit um afnám refsinga fyrir vörslu fíkniefna er enn bara fyrirheit.

Þegar lyfjalög voru til afgreiðslu um mitt kjörtímabil lagði ég fram breytingartillögu sem fól í sér leyfi til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun að uppfylltum ströngum skilyrðum. Þá tillögu felldu stjórnarliðar samviskusamlega. Þetta má vissulega úti á landi svo ekki sitja öryggissjónarmiðin í stjórnvöldum, bara hreinræktuð forsjárhyggja.

Skrautfjaðrir eru ágætar til síns brúks. Eitt er þó víst, það er ekki flogið með þeim.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×