Erlent

Stóru iðnríkin ætla að gefa milljarð bóluefnaskammta

Kjartan Kjartansson skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, (t.v.) og Joe Biden Bandaríkjaforseti (t.h.) hafa samtals lofað fleiri en 600 milljónum skammta af bóluefni til snauðari þjóða.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, (t.v.) og Joe Biden Bandaríkjaforseti (t.h.) hafa samtals lofað fleiri en 600 milljónum skammta af bóluefni til snauðari þjóða. AP/Toby Melville

Sjö helstu iðnríki heims ætla að tilkynna að þau muni gefa þróunarríkjum um allan heim að minnsta kosti milljarð skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni. Bandaríkin og Bretland ætla að leggja til meira en helming skammtanna.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur þegar tilkynnt að hann ætli að láta alríkisstjórnina kaupa hálfan milljarð skammta af bóluefni til að gefa ríkjum sem eiga erfitt uppdráttar í faraldrinum og í gær var tilkynnt að bresk stjórnvöld ætluðu að gefa 100 milljónir skammta.

Uppbygging eftir kórónuveiruheimsfaraldurinn er á dagskrá fundar G7-ríkjanna svonefndu á Englandi í dag. Auk Bandaríkjanna og Bretlands eiga Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Japan sæti við borðið.

„Við ætlum að hjálpa til við að leiða heiminn út úr þessum faraldri með því að vinna með alþjóðlegum bandamönnum okkar,“ sagði Biden í gær.

Bóluefni gegn kórónuveirunni hefur verið verulega misskipt í heiminum. Í Bandaríkjunum safnast nú upp birgðir af skömmtum þar sem eftirspurn eftir bólusetningu fer minnkandi. Á sama tíma segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin að 90% Afríkuríkja muni ekki ná markmiði um að bólusetja 10% íbúa sinna fyrir september.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og gestgjafi G7-fundarins, sagðist vonast til þess að hinir leiðtogarnir á fundinum fylgdu í fótspor þeirra Biden og kynntu heit um að gefa bóluefni til snauðari þjóða. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tók vel í það og sagði að Evrópuríki ættu að fylgja í kjölfarið. Frakkar ætla að gefa að minnsta kosti þrjátíu milljónir skammta fyrir lok ársins, að sögn AP-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Lang­flest Afríku­ríki ná ekki bólu­setningar­mark­miði

Níu af hverjum tíu Afríkuríkjum ná ekki markmiði um að bólusetja 10% íbúa sinna fyrir september, að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins er nú í uppsiglingu víða í álfunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×