„Þetta er hrikalegt að sjá þetta hvernig hann dettur þarna. Að horfa á þetta í beinni útsendingu og sjá hvernig hann dettur niður án þess að bera fyrir sig hendurnar, það vekur strax upp grun um að þetta hafi verið hjartastopp, ekki út af einhverjum öðrum orsökum,“ segir Kristján.
Það sem kom í framhaldinu staðfesti gruninn enn frekar.
„Maður sér það á honum augnaráðið og svipnum á andlitinu,“ segir Kristján.
Hann segir fumlaus viðbrögð læknateymis liðsins og liðsfélaga Eriksen hafa bjargað lífi hans.
„Þeir kveikja strax á því hvað gerðist þarna. Það er eðlilegt þegar fólk fer í hjartastopp, sem er yfirleitt vegna þess að sleglar hjartans fara í hraðtakt eða tif, þá er fólk með smá rænu fyrst og andar. Maður sér fyrst að hann andar og hreyfir augun, síðan virðist hann detta alveg út, þá hefja þeir hjartahnoð og gefa honum rafstuð, sem eru hárrétt viðbrögð. Maður hefur sirka þrjár mínútur eftir að fólk fer í hjartastopp til að hefja endurlífgun með hjartahnoði. Eftir þrjár mínútur er mikil hætta á að heilinn verði fyrir óafturkræfum skaða,“ segir Kristján.
Ef endurlífgunin dregst á langinn er kælingu beitt á bráðadeild.
„Þar sem fólk er kælt niður um nokkrar gráður. Það hefur sýnt sig að það verndar fólk eftir hjartastopp. En eftir svona stutt hjartastopp, þar sem hann virðist hafa vaknað strax, þá er kælingu ekki beitt því til að beita kælingu þarf að svæfa fólk í að minnsta kosti sólarhring,“ segir Kristján.
Hann segir góðar líkur á því að Eriksen hafi ekki fundið fyrir neinu skömmu áður en hann féll til jarðar.
„Þetta er það sem menn eru hræddir við að gerist hjá íþróttafólki,“ segir Kristján.
Hann segir langalgengast að fólk fái hjartastopp af völdum hjartasjúkdóma en það sé afar óalgengt hjá fólki á þrítugsaldri.
Íþróttamenn á borð við Eriksen séu hjarta- og ómskoðaðir til að reyna finna undirliggjandi galla í hartanu. Það geti oft fylgt erfðagöllum á borð við þykknun á hjarta.
Hann telur ólíklegt að hjartastoppið hafi orðið vegna ofreynslu. „Mér finnst það ólíklegt hjá svona vel þjálfuðum íþróttamanni sem spilar í einni af bestu deildum heims. Þetta gerist þar að auki í fyrri hálfleik. Hins vegar er það til í dæminu að ef fólk er með meðfædda galla í hjartanu þá getur áreynsla ýtt undir sleglatif.“