Menning

Íslensk-frönsk veforðabók opin öllum endurgjaldslaust

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vigdís Finnbogadóttir fagnaði níutíu ára afmæli sínu í fyrra. Hún opnar bókina í dag.
Vigdís Finnbogadóttir fagnaði níutíu ára afmæli sínu í fyrra. Hún opnar bókina í dag. Vísir/Vilhelm

Ný íslensk-frönk veforðabók verður öllum aðgengileg frá og með deginum í dag og það endurgjaldslaust. Lexía inniheldur fimmtíu þúsund uppflettiorð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá franska sendiráðinu.

Lexía, ný íslensk-frönsk veforðabók, verður opnuð við hátíðlega athöfn í Veröld – húsi Vigdísar síðdegis í dag. Vigdís Finnbogadóttir mun opna bókina og Roselyne Bachelot-Narquin, menningar- og samskiptamálaráðherra Frakklands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, eru meðal þeirra sem flytja ávarp við opnunina.

Lexía er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur (SVF) í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM). Þórdís Úlfarsdóttir, sérfræðingur hjá SÁM, er aðalritstjóri íslenska orðabókargrunnsins og Rósa Elín Davíðsdóttir, orðabókafræðingur við SVF, er ritstjóri franska hluta hennar. Aðrir í ritstjórn orðabókarinnar eru François Heenen, Jean-Christophe Salaün og Ólöf Pétursdóttir.

Gerð orðabókarinnar á sér aðdraganda aftur til ársins 1983 þegar íslensk og frönsk stjórnvöld undirrituðu samkomulag um að efla samvinnu landanna á sviði menningar og vísinda m.a. með stuðningi við gerð fransk-íslenskrar orðabókar og íslensk-franskrar. Sú fyrri kom út árið 1995 en vinna við íslensk-frönsku veforðabókina hófst haustið 2015 eftir að ákveðið var að gefa hana út í stafrænu formi og byggja á gagnagrunni ISLEX, margmála orðabókar milli íslensku og norrænu málanna á vegum SÁM.

Vigdís Finnbogadóttir hefur frá upphafi verið mikill hvatamaður að útgáfu bókarinnar en hún hefur alla tíð haldið á lofti mikilvægi tungumála og tungumálanáms. Vigdís var landsþekktur frönskukennari og frumkvöðull í tungumálakennslu í íslensku sjónvarpi og hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra UNESCO í tungumálum frá árinu 1998.

Útgáfa Lexíu markar tímamót þar sem nú eru liðin meira en 70 ár frá því að íslensk-frönsk orðabók kom síðast út. Því er mikill fengur í orðabókinni bæði fyrir Íslendinga sem eru að læra frönsku, frönskumælandi íslenskunema, þýðendur, áhugafólk um franska tungu, menningu og þjóðlíf og alla þá sem eiga samskipti við frönskumælandi fólk. Franska er töluð af um 75 milljónum manna víða um heim og er því mikilvægt tungumál í alþjóðasamskiptum. Útgáfa Lexíu er mikilvægur liður í því að efla samskipti og treysta vináttubönd Íslands og Frakklands.

Lexía inniheldur um 50 þúsund uppflettiorð ásamt fjölmörgum notkunardæmum og orðasamböndum sem þýdd eru á frönsku. Orðabókin verður öllum aðgengileg án endurgjalds á slóðinni www.lexia.arnastofnun.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.