Innlent

Fara fram á gæslu­varð­hald til næsta föstu­dags vegna hnífs­tungunnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Grímur Grímsson segir að fari verði fram á gæsluvarðhald yfir hinum grunaða fram á næsta föstudag. 
Grímur Grímsson segir að fari verði fram á gæsluvarðhald yfir hinum grunaða fram á næsta föstudag.  Vísir/Stefán Óli

Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um að hafa stungið karlmann með hnífi í kviðinn á aðfaranótt síðasta sunnudags. Farið verður fram á vikulangt gæsluvarðhald til viðbótar yfir manninum og verður hann leiddur fyrir dómara síðar í dag.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Hann segir rannsókn málsins ganga vel og verið sé að yfirheyra vitni að árásinni.

Maðurinn sem varð fyrir hnífstungunni á aðfarnótt sunnudags fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna í miðbæ Reykjavíkur er á batavegi. Manninum var haldið sofandi í þrjá daga eftir árásina og hann talinn í lífshættu. Hann er nú vaknaður en lögregla hefur ekki náð að tala við hann í tengslum við málið.

„Við erum að stefna að því að gera það eins fljótt og mögulegt er,“ segir Grímur.

Þá er enn til rannsóknar hvort tveir bílbrunar, annars vegar í Kópavogi og hins vegar í Árbæ, tengist málinu. Þá hefur lögreglan tvo hnífa til skoðunar og rannsakar hvort þeir séu vopnið sem notað var í árásinni. Annar hnífurinn fannst á vettvangi fyrir utan Fjallkonuna á aðfarnótt sunnudags og hinn fannst á bílaplaninu þar sem bíllinn í Árbæ brann.


Tengdar fréttir

Ó­raun­veru­legt að horfa á bílinn sinn brenna úti á plani

Silja Ragnarsdóttir, sem lenti í þeirri sjaldgæfu en jafnframt leiðinlegu lífsreynslu að kveikt var í bílnum hennar aðfaranótt sunnudags, segir það hafa verið óraunverulegt að horfa á bílinn sinn í ljósum logum fyrir utan heimili hennar.

Maðurinn ekki lengur talinn í bráðri lífs­hættu en honum haldið sofandi

Maðurinn sem ráðist var á með eggvopni á aðfaranótt sunnudags er ekki talinn í bráðri lífshættu lengur. Honum er þó haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítala. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×