Enski boltinn

Fyrrum samherji Gylfa: „Ancelotti laug að mér“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ancelotti er farinn til Spánar.
Ancelotti er farinn til Spánar. Tony McArdle/Getty

Joshua King, fyrrum samherji Gylfa Sigurðssonar, segir að Carlo Ancelotti, hafi logið að sér er hann gekk í raðir Everton.

Norski landsliðsmaðurinn er sem stendur án félags eftir að samningur hans við Everton rann út í sumar. Hann kom til félagsins í febrúar og byrjaði ekki einn deildarleik.

King vandar stjóranum Ancelotti heldur ekki kveðjurnar í viðtali við norska Dagbladet þar sem hann segir að Ítalinn hafi logið að sér.

„Já, ég trúi því,“ sagði King aðspurður um það hvort að Ancelotti hafi logið að sér um mögulegan spiltíma hjá þeim bláklæddu í Bítlaborginni.

„Þannig er fótboltaheimurinn. Svona gerist þetta á toppi fótboltans en ég sé ekki eftir því að hafa gengið í raðir Everton.“

„En já, hann laug að mér. En aftur: Það eru ekki margir heiðarlegir innan fótboltans. Ég átti ekkert samband við Ancelotti.“

Samningur King við Bournemouth átti að renna út í sumar en Everton keypti hann á fimm milljónir punda í febrúar. Hann náði þó aldrei að sýna sig og sanna.

„Þegar boðið kom frá Everton þá fann ég að ég yrði að taka því. En ég ímyndaði mér ekki að í átján leikjum fengi ég ekki að byrja einn.“

Bæði King og Ancelotti eru nú farnir frá Everton. King er samningslaus en Ancelotti er tekinn við Real Madrid á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×