Enski boltinn

Vieira að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina

Sindri Sverrisson skrifar
Patrick Vieira er að taka við Crystal Palace.
Patrick Vieira er að taka við Crystal Palace. EPA-EFE/Sebastien Nogier

Patrick Vieira verður næsti knattspyrnustjóri Crystal Palace samkvæmt heimildum miðla á borð við The Athletic og Sky Sports.

Vieira er ekki búinn að skrifa undir samning hjá Palace en samkomulag er í höfn um að þessi 45 ára gamli Frakki taki við enska úrvalsdeildarliðinu.

Vieira er reyndar þriðji knattspyrnustjórinn sem Palace nær samkomulagi við á síðustu þremur vikum, samkvæmt Sky Sports, en nú er búist við því að samningar verði undirritaðir.

Stjórn Palace mun hafa verið að vonast eftir því að Lucien Favre, sem síðast stýrði Dortmund en hætti með liðið í fyrra, myndi snúast hugur og taka við liðinu. Úr því að það gekk ekki upp var leitað til Vieira.

Leikmenn Palace snúa aftur til æfinga á nýju undirbúningstímabili á mánudaginn. Þá ætti Vieira að vera tekinn til starfa.

Vieira, sem lék yfir 100 landsleiki fyrir Frakkland, þekkir vel til í Lundúnum eftir að hafa leikið með Arsenal stærstan hluta síns ferils. Sem knattspyrnustjóri hefur hann stýrt New York City FC árin 2016-2018 og svo Nice í Frakklandi í tvö ár.

Roy Hodgson var síðast stjóri Palace og hann stýrði liðinu til 14. sætis á síðustu leiktíð áður en samningur hans við félagið rann út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×