Lekinn vakti gamlan og skæðan myglusvepp af værum blundi sem nú herjar á húsið allt.
Árný greinir frá þessum ósköpum á Facebook-síðunni „Berlín, borgin okkar“ en þar auglýsir hún eftir lögfræðingi.
„Þvottavélin okkar lak á meðan við vorum heima á Íslandi (lak í tvo mánuði áður en það fattaðist). Vatnslekinn náði niður tvær hæðir og triggeraði gamlan (að minnsta kosti 3 til 5 ára) myglusvepp sem geisar nú í þrem íbúðum.“
Eins og vart ætti að þurfa að tíunda voru þau Daði Freyr og Árný Fjóla, meðan þessu fór fram, að sinna mikilvægum erindum, nefnilega þeim að vera fulltrúar Íslands í Eurovision-söngvakeppninni.
„Við vorum nýlega flutt og ekki með heimilistryggingar,“ heldur Árný Fjóla áfram.
„Okkur var sagt af nágranna sem sá um íbúðina á meðan við vorum á Íslandi að þetta væri að minnsta kosti að hluta tryggt af leiguverðinu. Erum búin að reyna að hafa samband við húseiganda og leigumiðlara án svara og þau demba á okkur 35.000 evra skuld án fyrirvara.“