Hér á jörðinni mynda örverur í maga dýra sem éta plöntur mikið metan. Því gasi er svo prumpað og ropað út í andrúmsloftið.
Eins og segir í grein á vef NASA þykir fundur metans ekki til marks um að húsdýr eins og kýr og kindur megi finna á Mars, heldur megi mögulega finna örverur á plánetunni. Sömuleiðis gæti gasið myndast við jarðhitaferla.
Mælitæki vélmennisins Curiosity hafa reglulega greint metan á yfir Galegígnum en þrátt fyrir það hefur gervihnöttur Geimvísindastofnunar Evrópu sem var sérstaklega hannaður til að finna metan, ekki getað greint gasið hærra í andrúmslofti Mars.
Sjá einnig: Vonast til að leysa leyndardóm Mars á næstu mánuðum
Haft er eftir einum vísindamanni í grein NASA að hann hafi búist við því að áðurnefndur gervihnöttur, sem kallast Trace gas Orbite, myndi greina metan alls staðar í andrúmslofti Mars þegar hann var tekinn í notkun árið 2016.
Curiosity hefur greint metan í bæði litlu og í gífurlegu magni en TGO hefur þrátt fyrir það ekki fundið neitt.
Curiosity hefur einnig greint lífrænar sameinendir á yfirborði Mars. Uppgötvunin var þó ekki bein vísbending um að líf hafi eitt sinn verið á Mars eða finna megi líf þar núna en sameindirnar geta orðið til án lífs.
Á vef NASA segir að vísindamenn hafi talið mögulegt að vélmennið sjálft væri að mynda gasið, mögulega með því að keyra yfir grjót eða með öðrum leiðum, en rannsóknir hafi ekki sýnt fram á það.
Í niðurstöðum rannsóknar vísindamanna NASA eru líkur leiddar að því að það skipti máli hvenær mælingarnar séu teknar. Mælitæki Curiosity séu notuð að nóttu til og þá vegna þess hve orkufrekar mælingarnar eru. Þá sé þó tiltölulega lítill vindur á Mars.
TGO er hins vegar notaður að degi til því myndavélar gervihnattarins þurfi sólarljós til að greina metan í andrúmslofti Mars í um fimm kílómetra hæð. Þá sé vindur þó meiri. Með því að láta Curiosity einnig rannsaka andrúmsloftið að degi til var hægt að sýna fram á að svo virðist sem tími mælinganna skipti sannarlega máli.
Gasið virðist myndast sífellt en að degi til blandast það út í andrúmsloftið svo það greinist ekki úr geimnum.
Ekki vitað hvað verður um gasið
Það leysir þó ekki ráðgátuna um metan á Mars. Alls ekki. Í fyrsta lagi er enn ekki vitað hvernig metan myndast á mars og þar að auki er ekki vitað hvað verður um gasið.
Metan er stöðugt og ætti það að endast í andrúmslofti Mars í um 300 ár, áður en það eyðist vegna geislunar frá sólinni. Vísindamenn NASA telja að metan beri úr jörðu á Mars og engin ástæða þykir til að telja að Galegígurinn sé einstakur að því leiti. Því ætti andrúmsloft Mars að vera mettað af metani.
NASA segir vísindamenn gruna að eitthvað á Mars valdi því að metan eyðist hraðar og er meðal annars verið að rannsaka hvort það sé vegna veikra rafstrauma sem finna má á Mars, meðal annars vegna ryks á plánetunni. Sömuleiðis er verið að skoða hvort súrefni við yfirborð Mars eyði metani áður en það getur borist ofar í andrúmsloftið.