Búist er við því að yfirvöld birti ákærurnar í dag en ekki er vitað nákvæmlega hvað í þeim stendur.
Ekki er búist við því að gefin verði út ákæra á hendur Donald Trump í tengslum við þetta tiltekna mál en fasteignamógúllinn er enn til rannsóknar hjá ákæruvaldinu fyrir ýmsar meintar sakir.
Rannsóknin á Weisselberg og öðrum stjórnendum fyrirtækisins hefur meðal annars beinst að því hvort þeir hafi notið fríðinda á borð við leigðar íbúðir og bifreiðar án þess að gefa það upp á skattaframtölum.
Trump og talsmenn hans segja ásakanirnar ekki á rökum reistar og að um sé að ræða pólitískar ofsóknir. Weisselberg hefur sjálfur sagt að þeir gjörningar sem hafi verið til rannsóknir tíðkist víða í bandarísku viðskiptalífi og feli ekki í sér nokkurn glæp.
Sektardómur í málinu gæti komið töluvert illa niður á fyrirtækinu, sem hefur þegar misst samninga við New York-borg í kjölfar innrásarinnar í þinghúsið í Washington í ársbyrjun.
Kunnugir segja mögulegt að lánadrottnar gætu gjaldfellt skuldir fyrirtækisins og gert það gjaldþrota.