Skoðun

Fimm álmur Ás­mundar­salar

Björn Leví Gunnarsson skrifar

Ásmundarsalarmálið er orðið eins og frekar ólystugt lasagna. Eftir því sem málinu hefur undið fram hafa bæst við ný lög af dómgreindarbresti og gagnrýniverðri hegðun, og eftir sitjum við með óbragði í munni.

Eins og staðan er núna er Ásmundarsalarmálið fimmþætt. Allir fimm þættirnir eru mikilvægir, varhugaverðir og gagnrýniverðir, sem nauðsynlegt er að læra af.

1. Fjármálaráðherra í Ásmundarsal

Ríkisstjórn ráðherrans hafði lagt íþyngjandi kvaðir á samborgara sína, sem hann virti ekki sjálfur. Þrátt fyrir að hafa verið tvísaga, annars vegar í afsökunarbeiðni sinni og hins vegar í Kastljósi, gekkst ráðherrann við dómgreindarbresti sínum. Ólíkt mörgum kollegum hans í útlöndum sem komu sér í svipaðar aðstæður sagði ráðherrann ekki af sér.

2. Símtöl dómsmálaráðherra

Dómsmálaráðherra má vitaskuld hringja í lögreglustjóra en þegar málið snertir samráðherra og náinn samstarfsmann má dómsmálaráðherra átta sig á hagsmunatengslunum. Að spyrjast fyrir um afsökunarbeiðni, þannig að lögreglustjóri þarf að minna dómsmálaráðherra á að hlutast ekki til um rannsóknina, bætir svo ekki úr skák.

3. Krafa um trúnað

Þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fundaði um símtölin með ráðherra og lögreglustjóra var fundurinn lokaður og þær gáfu ekki leyfi til að vitna til orða sinna. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir vilja þær ekki aflétta trúnaðinum. Það múlbindur nefndarmenn og geldir eftirlitshlutverk Alþingis. Píratar hafa ítrekað kallað eftir því að nefndarfundir séu almennt opnir, einmitt til að koma í veg fyrir þessa stöðu.

4. Hagræðing á búkmyndavélaupptökum

Lögreglan á ekki að geta átt við upptökur úr búkmyndavélum. Myndavélarnar eiga að tryggja öryggi lögreglumanna og að þeir misbeiti ekki valdi sínu gegn borgurunum. Upptökur eiga því að sýna nákvæmlega það sem á sér stað. Hagræðingin á upptökunum undirstrikar mikilvægi sjálfstæðs eftirlits með lögreglu, sem Píratar hafa barist fyrir.

5. Ávítur eftirlitsnefndar

Lögreglumenn eru gagnrýndir fyrir einkasamtal sem hafði ekki nein áhrif á störf þeirra á vettvangi, enda kvartaði enginn undan því. Kvartað var undan dagbókarfærslu sem lögreglumennirnir skrifuðu ekki. Eftirlitsnefndin grautar saman ummælum lögreglumanns í einkasamtali við getu hans til að sinna störfum sínum af hlutlægni. Píratar hafa kallað eftir fundi til að kanna hvort þessar opinberu ávítur standist lög og reglur.

Stjórnvöld hafa stigið mörg feilspor í Ásmundarsalarmálinu. Til þess að hvítþvo sitt fólk hafa stuðningsmenn stjórnvalda grautað saman ólíkum þáttum málsins, sagt að einn trompi annan og þannig reynt að færa umræðuna á grundvöll sem hentar þeim betur. En til þess að við getum dregið heildstæðan lærdóm af málinu þurfum við að tækla alla þætti þess. Þó svo að það sé ólystugt þá hefðum við gott af því að klára þetta lasagna.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×