„Mér finnst að í fyrsta lagi verði svona símtöl ráðherra við undirmann sinn, við forstöðumann stofnunar sem heyrir undir ráðherrann – slíkt samtal á að skrá og innihald þess samtals á að liggja fyrir. Við eigum að vita hvað þeim fór á milli,” segir Guðmundur.
Líkt og greint hefur verið frá hringdi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í tvígang og innti hana eftir afsökunarbeiðni vegna dagbókarfærslu um uppákomuna í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Lögreglustjóri greindi frá símtalinu á lokuðum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í mars.
Guðmundur Andri telur Áslaugu hafa farið út fyrir valdsvið sitt.
„Þetta segir sig sjálft og hún mátti vita það að hún þyrfti að hugsa sig um hverra hagsmuna hún væri að gæta þarna á aðfangadag.”
Trúnaður ríkir um það sem fram fór á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í mars, þegar lögreglustjóri kom fyrir nefndina. Guðmundur Andri segir að það beri að virða trúnað sem þarna ríki, nema þeir sem fyrir hana komi óski eftir öðru.
„Ef lögreglustjóri myndi vilja rjúfa þennan trúnað þá yrði honum aflétt,” segir hann.
Nefndin hyggst fjalla um málið og kalla fulltrúa Nefndar um eftirlit með lögreglu á opinn fund á næstu dögum.