Fótbolti

Ætla að opna hliðin upp á gátt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Búast má við fullum völlum á Bretlandi frá 19. júlí.
Búast má við fullum völlum á Bretlandi frá 19. júlí. Getty Images/Marc Atkins

Bresk stjórnvöld tilkynntu í dag tilætlanir sínar um að opna fyrir ótakmarkaða aðgöngu áhorfenda á íþróttaviðburði frá og með 19. júlí. Búast má því við fullum völlum í ensku úrvalsdeildinni þegar nýtt tímabil hefst í ágúst.

Engir áhorfendur voru leyfðir á enskum íþróttaviðburðum lungann úr síðasta keppnistímabili þar sem áhorfendabann hafði staðið í rúmt ár þar til 10 þúsund áhorfendur voru leyfðir á síðustu tveimur umferðunum í ensku úrvalsdeildinni í maí.

Þá hefur verið fjölmennt á leiki á Wembley á yfirstandandi Evrópumóti og búist er við meira en 60 þúsund manns á úrslitaleikinn á laugardag, á 90 þúsund manna vellinum. Nú er stefnan hins vegar sett á að selja megi miða í öll sæti á íþróttaviðburðum frá og með 19. júlí en endanleg ákvörðun verður tekin næsta mánudag.

Vel hefur gengið að bólusetja á Bretlandi en þrátt fyrir það hefur fjöldi nýsmitaðra aukist umtalsvert síðustu vikur. Boris Johnson, forsætisráðherra, lét hafa eftir sér að fólk þyrfti „læra að lifa með vírusnum“.

„Við munum færa okkur frá lagalegum takmörkunum og leyfa fólki að taka sínar eigin upplýstu ákvarðanir um það hvernig það tekst á við vírusinn,“ sagði Johnson þegar hann tilkynnti nýja áætlun bresku ríkisstjórnarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×