Erlent

Öryggismál á fæðingardeildum enn í ólestri

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áætlað er að 1,932 ljósmæður vanti til að uppfylla þörf heilbrigðiskerfisins og 496 sérhæfða lækna.
Áætlað er að 1,932 ljósmæður vanti til að uppfylla þörf heilbrigðiskerfisins og 496 sérhæfða lækna.

Ef tíðni andvana fæðinga og nýburadauða væri sú sama í Bretlandi og Svíþjóð, myndu þúsund færri börn deyja í Bretlandi á ári hverju. Þetta eru niðurstöður þingnefndar um aðbúnað og öryggi á breskum fæðingardeildum.

Síðustu ár hafa rannsóknir leitt í ljós verulega ágalla á fæðingarþjónustu í Bretlandi, sem eru taldir hafa leitt til fjölda dauðsfalla bæði barna og mæðra, sem hefði mátt koma í veg fyrir.

Þingnefndin komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að gripið hefði verið til úrbóta í kjölfar fjölda hneykslismála, væri öryggi en ábótavant á tveimur af hverjum fimm fæðingardeildum en ástæðan væri meðal annars sú að alvarleg atvik væru þögguð niður í stað þess að vera rædd.

Í skýrslu nefndarinnar er fjallað um Svíþjóð í þessu samhengi og hvernig þarlend yfirvöld tóku upp á því að greiða einstaklingum bætur þegar eitthvað fór úrskeðis, án þess að krefjast þess að sýnt væri fram á vangá eða vanrækslu. 

Einstaklingar fengju bætur á þeim forsendum að þjónustan hefði einfaldlega ekki verið nógu góð; þess væri ekki krafist að sökudólgur væri fundinn. Þetta gerði það að verkum að heilbrigðisstarfsmenn væru opnari fyrir því að ræða hvað gerðist, að menn lærðu af reynslunni og að atvik endurtækju sig ekki.

Að sögn þingnefndarinnar skortir enn á viljann til að draga lærdóm af því sem hefur misfarist í fæðingarþjónustunni í Bretlandi. Skortur á heilbrigðisstarfsmönnum er þó ein helsta ástæða þess að öryggi er ábótavant en áætlað er að 1,932 ljósmæður vanti til að uppfylla þörf heilbrigðiskerfisins og 496 sérhæfða lækna.

Þá lýsir nefndin áhyggjum af því að ungbarnadauði er töluvert tíðari meðal minnihlutahópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×