Innlent

Eldgígurinn gæti verið að rumska eftir langan svefn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bláleit móða steig upp úr gígnum klukkan 10.40 en ekkert sást til jarðelds, þegar þetta skjáskot var tekið.
Bláleit móða steig upp úr gígnum klukkan 10.40 en ekkert sást til jarðelds, þegar þetta skjáskot var tekið. Vísir/Vefmyndavél

Óróamæling í Fagradalsfjalli í morgun bendir til þess að eldgosið gæti verið að taka sig upp að nýju eftir lengsta goshlé til þessa. Miðað við upptaktinn eftir goshléin undanfarna tíu daga kæmi ekki á óvart ef sæist til jarðelds á ný á næstu klukkustundum.

Raunar gæti kvika þegar verið byrjuð að krauma í gígnum. Móðan sem steig upp úr honum um tíma í morgun virtist meiri og bláleitari en fyrr um morguninn. Ekkert hefur þó sést til glóandi hrauns á vefmyndavélum, enn sem komið er, þegar þetta er ritað.

Óróamæling í Fagradalsfjalli eins og staðan var klukkan 10.40. Takið eftir risinu lengst til hægri og hvernig línurnar stefna upp í sömu hæð og í fyrri goshrinum, bæði 3. júlí og 5. júlí.Veðurstofa Íslands

Óróarit Veðurstofunnar sýnir vel hvernig nánast slökknaði skyndilega á eldstöðinni um ellefuleytið í fyrrakvöld. Um sjöleytið í morgun fór óróinn svo að taka strikið upp á við. Með sama áframhaldi stefnir í að á næstu klukkustundum gæti hann verið kominn í þá hæð sem endurspeglar gosvirkni í kraumandi gíg.

Hér má fylgjast með gígnum í beinni á vefmyndavél Vísis:

Hér má rifja upp hvernig gosið var fyrir viku:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×