Langt fram eftir 20. öld voru fiskimenn með útgerð grásleppubáta við Ægisíðu.
„Þegar mest var þá voru hér sextán bátar sem réru héðan út og hér eru mjög merkar atvinnuminjar fyrir Reykjavík,“ sagði María Karen Sigurðardóttir, deildarstjóri minjavörslu og rannsókna hjá Borgarsögusafni Reykjaíkur.
Grásleppuskúrarnir sem standa við Ægisíðu voru á sínum tíma vinnu- og geymsluskúrar. Borgarsögusafn fékk það verkefni fyrir þremur árum að gera minjunum hærra undir höfði og hreinsa til á svæðinu. Ljósmyndir voru notaðar til að skoða uppruna skúrana.
„Við fengum smið til þess að taka hér upp fyrsta skúrinn af nokkrum og endurgera hann.“
Þessi skúr hér að ofan er sá fyrsti sem er endurgerður og má finna mikla viðarlykt þegar gengið er inn í hann. Skúrarnir voru á sínum tíma smíðaðir úr kassafjölum og ljóst að fólk nýtti það efni sem til var.
„Þá kom í ljós að undir var, eins og oft er, tjörupappi og síðan lektur. Síðan var gólfið orðið fúið þannig að það þurfti að setja nýtt gólf í skúrana,“ sagði María.
„Ýmsir mögulekar til að nýta þessar minjar“
„Þessir grásleppuskúrar hafa staðið lengi hér við Ægisíðuna en nú stendur til að nýta þá betur.“
„Einhverjar umræður hafa verið um að nýta skúrana sem búningsklefa fyrir þá sem stunda sjósund. Það væri vel hægt að gera það þannig það eru ýmsir möguleikar til að nýta þessar minjar,“ sagði María Karen.
Stefnt er að því að taka aðra skúra á svæðinu í gegn á næstunni.
„Mér finnst ekki ólíklegt að það verði haldið áfram og vonandi verður það svo því að þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnusögu Reykjavíkur.“