Erlent

Risa­pandan ekki lengur í út­rýmingar­hættu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Risapöndur lifa nær eingöngu á bambus.
Risapöndur lifa nær eingöngu á bambus. epa/Jim Lo Scalzo

Kínversk stjórnvöld segja risapönduna ekki lengur í bráðri útrýmingarhættu en stofninn sé enn viðkvæmur. Fjöldi villtra risapanda hefur nú náð 1.800.

Pöndurnar eru ein af þjóðargersemum Kína, sem hefur einnig lánað þær öðrum þjóðum til að treysta diplómatísk tengsl. 

Aðgerðir hafa ekki síst beinst að því að standa vörð um heimkynni risapöndunnar og byggja þau upp á nýtt. Pandan lifir nær eingöngu á bambus og sveltur án hans. Því hefur verið lögð áhersla á að rækta upp bambusskóga.

Margar tilraunir hafa einnig verið gerðar til að aðstoða pöndurnar við að fjölga sér en þær virðast missa áhugann á því að maka sig þegar þær eru í haldi. Í náttúrunni eignast þær gjarnan tvíbura en í flestum tilvikum lifir aðeins annar þeirra, þar sem móðirin mjólkar aðeins fyrir einn.

Alþjóðasamtökin International Union for Conservation of Nature fjarlægðu pönduna af lista yfir tegundir í útrýmingarhættu árið 2016 en kínverskum stjórnvöldum þótti það ekki tímabært fyrr en nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×